154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Lög um útlendingamál eru eins og rauður þráður í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og í rauninni þráður sem teygir sig í tilurð þeirrar ríkisstjórnar. Mig langar að fara hérna í smá stjórnmálalega sagnfræði og rifja það upp þegar þingið þvert á flokka náði saman um þá niðurstöðu að skjóta skjólshúsi yfir á að giska 80 fjölskyldur á flótta haustið 2017. Það skapaðist nefnilega eitthvert óhefðbundið, óvenjulegt andrými fyrir mannúð í þessum sal þetta haust. Eftir að ríkisstjórnin hafði liðast í sundur vegna uppreistar æru málsins voru fimm af sex flokkum, formenn fimm af sex flokkum hér á þingi sem lögðu sameiginlega fram lög um breytingu á lögum um útlendinga varðandi málsmeðferðartíma umsókna sem lágu fyrir bara á þeim tímapunkti í kerfinu og heyrðu annars vegar undir 74. gr. laganna og hins vegar 36. gr. Þetta gerðist eftir ofboðslega undiröldu í samfélaginu, undiröldu mannúðar sem var leidd af börnum og ungmennum, krökkum í Hagaskóla sem sáu vinkonu sína sem var á flótta, ekki bara undan aðstæðum í heimalandinu heldur líka undan aðstæðum í kerfinu sem átti að vernda hana gegn ómannúðlegum aðstæðum í Grikklandi. Dögum og vikum saman mótmælti fólk og þegar þetta svigrúm myndaðist, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins tortímdi sér, þá tókum við höndum saman hér á þingi og samþykktum að víkka út svigrúmið til að taka til afgreiðslu mál 80 fjölskyldna.

Fimm af sex flokkum, sagði ég, lögðu þetta fram en það var samkomulag hér innan þings um að svona myndum við klára þetta örstutta kjörtímabil með reisn. Þetta væri eitt af því sem við gætum siglt í gegnum þingið og litið um öxl dálítið stolt af því að hafa staðið með þessum fjölskyldum. En einn flokkur snerist gegn þessu samkomulagi sem við töldum öll að hér ríkti. Einn flokkur greiddi atkvæði gegn því að skjóta skjólshúsi yfir 80 fjölskyldur flóttabarna á þessum lokametrum kjörtímabilsins. Sá flokkur heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Varla að það þurfi einu sinni að nefna það. Þessi karakter teiknar sig svo skýrt upp í öllum sögum sem snúast um útlendingamál. Þess vegna þótti okkur mörgum mjög ankannalegt að stuttu seinna, rétt hinum megin við kosningarnar, skyldi þeim flokki enn og aftur réttur lykillinn að dómsmálaráðuneytinu og að þar færi fremst í flokki Vinstrihreyfingin – grænt framboð sem við höfðum mörg talið að stæði fyrir allt aðra nálgun í útlendingamálum. En jú, Sjálfstæðisflokkurinn fékk lyklavöldin og fór síðan í framhaldinu að leggja margítrekað fram frumvarp um breytingu á útlendingalögum sem við kölluðum sum, gárungarnir, ógeðsfrumvarpið, sem varð að lögum nú síðasta vor.

Rauði þráðurinn sem ég nefndi hér í upphafi er 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga sem snýst um að geta umfaðmað fólk sem er ekki bara að flýja ofbeldi og ofsóknir í heimaríkinu heldur líka vanvirðandi þjónustu í verndarkerfi Grikklands sérstaklega. Það er alveg hægt að nefna það að Grikkland, Ítalía og Ungverjaland eru þau lönd sem kannski helst er um að ræða. Hér erum við að tala um börn sem ekki geta gengið í skóla, ekki uppfyllt þar með rétt sinn til menntunar, langveikt fólk sem ekki fær fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, félagsþjónusta er í molum, atvinnuþátttaka er varla í boði og fordómar og ofbeldi eru daglegt brauð. Fólk flýr verndarkerfið og kemur hingað til Íslands.

Frá upphafi þessarar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hefur Sjálfstæðisflokkurinn reynt að kroppa í þetta ákvæði 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga. Þess vegna var nú, skal ég viðurkenna, ánægjulegt að sjá að þeirri tilraun var hætt fyrir ári þegar þáverandi hæstv. ráðherra lagði fram frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga og þar barði þingflokkur Vinstri grænna sér á brjóst fyrir að hafa náð þeim breytingum fram. Mig langar hér að lesa upp úr ræðu hv. þm. Jódísar Skúladóttur úr 1. umræðu þess máls 22. október 2022. Með leyfi forseta:

„Í þessu samhengi er mikilvægt að ekki sé fallið frá því í núverandi frumvarpi að einstaklingar sem þegar hafa fengið vernd í öðru ríki geti fengið efnismeðferð hér vegna sérstakra tengsla og aðstæðna, til að mynda fjölskyldubanda. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði þar sem áhersla er lögð á mannúð umfram skilvirkni.“

Forseti. Hér er þessi eilífa togstreita laganna, markmiðsákvæðin um mannúð og skilvirkni eru stöðugt að togast á og því miður fer mannúðin oftast halloka í þessu stjórnarsamstarfi. En þarna, langar mig bara að taka undir með hv. þm. Jódísi Skúladóttur, var gerð jákvæð breyting þar sem þessu ákvæði var haldið inni. Enda sagði hún í andsvari fjórum mínútum síðar að hún teldi mjög mikilvægt að við héldum inni þessari mikilvægu grein og var þar að vísa í 2. mgr. 36. gr.

Þess vegna kom okkur held ég mörgum á óvart að sjá í þessu frumvarpi sem við ræðum hér í dag lagt til að fella á brott 2. mgr. 36. gr. Það er ekki lengur verið að reyna að kroppa í hana eins og var gert á síðustu árum heldur er hreinlega verið að fella hana úr gildi með húð og hári þannig að stjórnvöldum verður ekki lengur heimilt að taka til skoðunar mál eins og kveikti mannúðarneistann hér haustið 2017. Það verður ekki í boði, þessu fólki verður bara snúið við á landamærunum, sparkað beinustu leiðina aftur í ólíðandi aðstæður í Grikklandi. Þetta kom okkur á óvart og annaðhvort er þingflokkur Vinstri grænna búinn að lesa þetta mál of hratt og skautaði yfir þessa breytingu eða bara hættur að berjast fyrir því sem við héldum að hefði verið einhver sigur fyrir ári.

Af því að mér heyrist hæstv. ráðherra hafa hér bankað í borð til að ræða þessi mál eitthvað nánar þá held ég að ég staldri aðeins meira við 2. mgr. 36. gr. til að útskýra betur hvað ég á við með mikilvægi hennar. Það er nefnilega ákveðin hentistefna þegar kemur að verndarkerfinu hér á Íslandi. Það er alltaf vísað í þessa heimild til endursendingar til fyrsta viðkomuríkis fólks á flótta sem einhvers sem sé mjög mikilvægt að standa vörð um. Það sé voðalega slæmt að fólk sé að flakka um álfuna og það geti bara haldið sig á Grikklandi þar sem því skolaði fyrst á land. En þá er fólk alltaf að horfa fram hjá því að hin hliðin á þessu prinsippi í samevrópska flóttamannaregluverkinu snýst um samhjálp, snýst um að ríkin deili byrðunum. Staðan hefur einfaldlega verið sú frá upphafi átakanna í Sýrlandi fyrir að verða áratug — nei, það er orðinn áratugur — að Grikkland hefur bara ekkert ráðið við ástandið. Grísk stjórnvöld vilja ekkert endilega vera að brjóta mannréttindi á flóttafólki hægri vinstri með því að veita því ekki þá þjónustu sem fólk á rétt á en þau hafa ekki ráðið við verkið, hafa ítrekað sent neyðarkall um alla álfuna, kallað eftir því að ríki axli ábyrgð á þessu verkefni með þeim, taki við einhverju af því fólki sem fengið hefur vernd í Grikklandi. Hver eru viðbrögð íslenskra stjórnvalda? Þau eru þveröfug. Þau eru að senda fólk aftur inn í brotna verndarkerfið.

Þetta er það sem ég vildi segja um 36. gr., 2. mgr. Það er svo lítill tími eftir að ég held að ég fari bara að láta þar við sitja. Vil kannski aðeins til að fylla upp í tímann nefna það sem hefur dálítið oft verið rætt hér í þessari umræðu og ég held að ég hafi einmitt heyrt hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur nefna í sinni ræðu og það er þessi hugmynd um að við getum haft einhverja fulla stjórn á því hversu mikið af fólki leitar til landsins. Ég velti fyrir mér hvort fólkið sem hæst fer í þeirri umræðu þurfi kannski að læra æðruleysisbænina og reyna frekar að hafa stjórn á því sem við getum haft stjórn á vegna þess að eins og kom fram í umræðunni þá er fjöldi fólks á flótta í heiminum meiri í dag en nokkru sinni hefur verið í mannkynssögunni. Hins vegar er fjöldinn mögulega minni en við munum nokkurn tímann sjá í framtíðinni vegna þess að það er svo margt að breytast í heiminum sem mun auka á óstöðugleika, sem mun auka á nauðsyn þess að fólk flytjist búferlum á milli heimshluta, að flýja stríð eða áhrif loftslagsbreytinga t.d. Ég held því að allar þessar hugmyndir um að loka landamærum eða fjölga eða fækka flóttamönnum sem leita til ákveðinna landa séu ekki bara dæmdar til að mistakast heldur dæmdar til að gera samfélögin sem eltast við þær að verri samfélögum, vegna þess að hér erum við bara að tala um fólk sem leitar þangað sem best er að búa og leitast eftir því að búa þar til enn betra samfélag. Ég vona að við förum að komast eitthvað út úr þessari orðræðu og heyrist nú á því sem hefur komið fram í umræðunni að það sé sem betur fer ekki meiri hluti flokka hér á þingi sem tekur þátt í henni.

Ég vona að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki eitthvert mark á því sem umsagnaraðilar munu segja um þetta mál því ekki gerði meiri hlutinn það hér fyrir ári. Sérstaklega langar mig að nefna það varðandi 2. mgr. 36. gr. vegna þess að það er ákvæði sem á fyrri stigum eldri frumvarpa vakti hörð viðbrögð samtaka sem hafa mannúð að leiðarljósi og þegar þau samtök tala með jafn skýrum hætti og þau hafa gert og ég reikna með að þau muni gera núna þá eiga öll stjórnvöld með sjálfsvirðingu að hlusta.