154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

tilkynning forseta.

[13:31]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Vegna atviks sem átti sér stað á þingfundi í gær vill forseti taka fram að samkvæmt stjórnarskrá og lögum er Alþingi friðheilagt og enginn má raska friði þess eða frelsi. Þingfundir eru haldnir í heyranda hljóði og almenningur getur fylgst með störfum þess og það er mikilvægur liður í þeirri lýðræðislegu skipan sem við búum við. Í því felst hins vegar ekki réttur til að trufla starfsemi þingsins eða raska með öðrum hætti störfum þess. Öryggismál sem varða þingið og þingmenn eru að sjálfsögðu stöðugt til skoðunar og endurmats og atvik sem upp koma hafa auðvitað áhrif á það mat. Á það vitaskuld einnig við þann atburð sem átti sér stað í gær og verður farið vel yfir verklag og öryggisráðstafanir sem ástæða er til að gera af því tilefni.

Forseti þingsins, þeir starfsmenn sem bera ábyrgð á öryggismálum og lögregla eru í góðu sambandi af þeim sökum og sama gildir nú.