154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hver ber ábyrgð? Það er yfirskrift fundar sem boðað er til í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars næstkomandi. Á dagskrá er fæðingarorlofið og svokallað umönnunarbil, sem er tíminn eftir að fæðingarorlofi lýkur og þangað til barn fær pláss á leikskóla. Það er full ástæða til að spyrja um ábyrgð í þessu samhengi og þá sérstaklega um það hvort foreldrið, þegar um tvö, tvær eða tvo er að ræða, tekur að sér að brúa þetta bil. Staðan er nefnilega sú á Íslandi að konur taka bæði meiri hluta fæðingarorlofsins og eru mun líklegri til að lengja það heldur en karlar og að fara í hlutastarf að því loknu. Hvort tveggja leiðir til tekjutaps fyrir konuna á vinnumarkaði og í lífinu. Á þetta benti formaður BSRB, Sonja Þorbergsdóttir, síðast í fjölmiðlum í gær. Erlendar rannsóknir sýna að tekjufall kvenna eftir barneignir er allt annað og miklu meira en karla. Á þetta var t.d. bent nýlega í tímaritinu Economist.

Mér finnst alltaf jafn athyglisvert, forseti, að heyra muninn á afstöðu fólks til töku fæðingarorlofs. Flest sýna því nefnilega mikinn skilning að karlar skeri fæðingarorlofstöku sína við nögl vegna tekjutapsins sem þeir verða fyrir. Miklu minna ber á sömu viðbrögðum þegar konur eiga í hlut. Einhvern veginn er það þannig að tekjutap kvenna vegna fæðingarorlofstöku þykir ekkert sérstakt tiltökumál og endurspeglar þar með rótfastar hugmyndir um stöðu kvenna í samfélagi og á vinnumarkaði. Tekjufórn kvenna á vinnumarkaði vegna fæðingarorlofstöku er langt frá því að vera sjálfsagt mál. Hún leiðir til lægri ævitekna, verri kjara og réttinda á vinnumarkaði og að lokum til lægri eftirlauna.