154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

726. mál
[14:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hittir auðvitað ákveðinn nagla þarna á höfuðið. Við erum lítið land, við erum með litla stjórnsýslu en við erum samt sem áður að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi sem leggur á okkur ákveðnar kröfur og skyldur. Ég vil samt segja að þótt að sumu leyti geti ég tekið undir áhyggjur hv. þingmanns þá finnst mér margt hafa horft til framfara í þessum málum frá hruni. Ég minni á ágæta skýrslu sem hv. þingmaður óskaði eftir um hvernig hefði verið brugðist við þeim ábendingum sem settar voru fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eftir hrun. Eitt af því sem unnið hefur verið að er gjörbreyting á fjármálaeftirliti og ég vitna til rannsóknar Fjármálaeftirlits Seðlabankans á Íslandsbankasölunni og þeirra sektargreiðslna sem voru lagðar á í kjölfar þess. Við getum líka rætt um Samkeppniseftirlitið og mál Eimskipa og Samskipa og umfang þeirra. Og fleiri mál getum við nefnt.

Auðvitað tel ég að þrátt fyrir að við séum lítið land og stjórnsýslan í raun og veru fámenn þá höfum við verið að gera vel í því að vinna betur að þessum málum af því að við þurfum hreinlega að standa undir því ef við ætlum að vera alvöruþátttakendur í þessu alþjóðlega samstarfi sem við erum í. Nú ætla ég ekki að segja til um — og þess vegna er þetta bráðabirgðaákvæði, þar sem er lögð mikil áhersla á að farið verði yfir reynsluna af framkvæmd laganna, því að að einhverju leyti erum við að gjörbreyta okkar vinnulagi í þessum málum. En ég vil minna á að við erum auðvitað með gildandi lagaumhverfi og vinnuferlið í kringum það þegar fjárfestingar hafa verið teknar til skoðunar er að þá hefur verið lagt af stað í slíkar rannsóknir til að vega og meta hvort beita ætti þeim neyðarhemli sem yfirleitt er ekki gert. Við erum með þetta lagaumhverfi og það að fastsetja það með þessum hætti tel ég a.m.k. að auki líkurnar á því að við byggjum upp fagþekkingu, að við byggjum upp kunnáttu og vonandi tökum betri ákvarðanir í kjölfarið.