154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

726. mál
[15:12]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hlustaði á ræðuna af athygli og ég var ekki með það alveg á hreinu hvort hv. þingmaður telji þessa löggjöf takmarka erlendar fjárfestingar eða ekki, hvort þær takmarki þær almennt eða með einstökum hætti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður nefndi það varðandi 3. gr. að hún hamlaði erlendum fjárfestingum. Ég skil þessa löggjöf þannig að við séum að tala hérna um viðkvæm svið, starf á viðkvæmum sviðum, það er talið upp, en það er ekkert sem bannar það að íslensk stjórnvöld heimili fjárfestingar á viðkvæmum sviðum. Það er hins vegar tilkynningarskylda og ákveðið mat sem fer fram sem lýtur að þjóðaröryggi og þá er það ákvörðun ráðherra hvort hann heimili þá fjárfestingu. Varðandi eignarréttinn er það almenningsþörf sem er þar undir og almannahagsmunir í atvinnufrelsinu og svo að sjálfsögðu samningsfrelsi.

En spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Telur hann þessa löggjöf takmarka erlendar fjárfestingar með einhverjum hætti? Og ég vísa til þess sem stendur í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Fjárfestingarýni er þannig ekki ætlað að takmarka erlendar fjárfestingar almennt heldur er markmiðið að ganga úr skugga um að einstakar erlendar fjárfestingar á afmörkuðum samfélagssviðum leiði ekki af sér öryggisógn.“

Ég er bara að hugsa þetta því að ég skil frumvarpið greinilega allt öðruvísi en hv. þingmaður, vegna þess að ég lít svo á að þetta séu gæði erlendra fjárfestinga. Við höfum jú þjóðaröryggi hérna; verndarhagsmunir sem varða friðhelgi yfirráðasvæðis o.s.frv. Við vonandi seljum ekki alla sjoppuna til erlendra aðila og sitjum hér eftir sem leiguliðar. En spurningin er þessi: Telur hv. þingmaður og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, ef hann treystir sér til að svara fyrir flokkinn, hann gerði athugasemdir fyrir hönd flokksins, þetta takmarka erlendar fjárfestingar að einhverju leyti?