154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

726. mál
[15:17]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að þetta er stjórnarfrumvarp sem hefur verið samþykkt í ríkisstjórninni og afgreitt úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það ætti nú að fela í sér svarið um hvort Sjálfstæðisflokkurinn styðji frumvarpið eða ekki eða hvort ég styðji það eða ekki. Já, ég styð frumvarpið en það er sjálfsagt hér í 1. umræðu að ræða efnisatriði máls, hvað megi betur fara, hvað þurfi að rýna betur, hvað þurfi að skoða betur, til að við náum sem best markmiðum frumvarpsins um að annars vegar séum við með löggjöf sem er ekki til þess fallin að draga úr erlendum fjárfestingum, að það sé þá rýni í þeim tilvikum sem snúa að þjóðaröryggi og allsherjarreglu. Það er vandasamur meðalvegur, það er alveg ljóst, að finna réttu leiðina til að gæta að þessu meðalhófi.

Ég get til að mynda sérstaklega gert grein fyrir mikilvægi þess að nýsköpunargeirinn og sprotafyrirtækin, sem er afar mikilvægur vaxandi iðnaður á Íslandi — hann er ólíkur áliðnaði eða lyfjaiðnaði eða öðrum geirum. Hann er kvikur og kaupin á þeirri eyri gerast mjög hratt. Ég er ánægður með það, eins og ég kom inn á í ræðu minni hér, að það sé að einhverju leyti búið að taka tillit til athugasemda sem koma frá þeim geira um aðra málsmeðferð, um léttari rýni eða styttri rýni. Þetta getur allt skipt gríðarlega miklu máli fyrir nýsköpunargeirann, að fá svör eins fljótt og hægt er, innan örfárra daga þess vegna, þannig að þessi löggjöf verði ekki til þess að sprotafyrirtæki sem eru að afla sér fjármagns erlendis frá hreinlega missi af slíkum tækifærum ef af þeim ráðstöfunum verður. Þetta eru allt atriði sem ég tel mikilvægt að fái skoðun við hina þinglegu meðferð og var það sem ég var að gera grein fyrir í ræðu minni.