154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

726. mál
[15:20]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt frumvarp að ræða. Það hefði mátt koma til Alþingis fyrr og vera samþykkt sem lög á Alþingi fyrr. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er því ekki ætlað að takmarka erlendar fjárfestingar almennt heldur er markmiðið að ganga úr skugga um það að einstakar erlendar fjárfestingar á afmörkuðum samfélagssviðum leiði ekki af sér öryggisógn, að þær ógni ekki þjóðaröryggi Íslands. Hvað er þjóðaröryggi Íslands? Það er skilgreint í greinargerð. Það eru verndarhagsmunir sem varða friðhelgi yfirráðasvæðis, sjálfstæði og fullveldi Íslands sem og öryggi borgaranna, stjórnkerfisins og mikilvægra innviða samfélagsins, svo sem nánar er tilgreint í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Þetta lýtur að fullveldi Íslands og friðhelgi yfirráðasvæðisins sem íslensk stjórnvöld ráða yfir þannig að þetta er gríðarlega mikilvægt mál þegar kemur að fullveldi þjóðarinnar og að við stjórnum málum okkar sjálf.

Það kom hérna fram í ræðu áðan efasemdir eða athugasemdir, að þetta gæti takmarkað erlendar fjárfestingar almennt, meira að segja að 3. gr. gæti hamlað erlendri fjárfestingu. Ég er algjörlega ósammála því. Ég tel að þetta sé, eins og segir í greinargerðinni, fyrst og fremst að auka gæði erlendra fjárfestinga, sem eykur traust og gæti leitt til þess að erlend fjárfesting myndi aukast á Íslandi. Ef einhver hópur fólks er viðkvæmur fyrir orðstír sínum eru það fjárfestar. Þeir vilja ekki fjárfesta á svæðum þar sem þeir geta orðið fyrir álitshnekki og villta vestrið ræður ríkjum og lögleysa er algjör. Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að þessi löggjöf komi fram vegna þess að ef tryggjum að það sé gæðaeftirlit með erlendum fjárfestingum hvað þetta varðar þá gætu þessir erlendu fjárfestar aflað enn meira fjár og komið með það inn til Íslands í þær hugmyndir sem þeir vilja fjárfesta í. Þetta er alveg þveröfugt við það sem menn óttast, þetta mun ekki draga úr erlendum fjárfestingum heldur auka þær.

Ég held að við þurfum að horfa á fleiri svið í landinu hvað þetta varðar til að auka erlendar fjárfestingar. Ég get tekið dæmi sem er áhugamál úr mínu kjördæmi sem er þang og þari. Þá er í lögum um stjórn fiskveiða eitt ákvæði, 15. gr. a, sem er um sjávargróður. Annað er það ekki. Ég var á ráðstefnu hérna um daginn í haust sem einn fjárfestir, sem er búinn að færa sig úr fiskeldi yfir í þara, stóð fyrir, Arctic Algae. Ég hitti þar fjárfesti frá Bandaríkjunum og hann var hissa yfir því hversu veikur lagaramminn væri á því sviði sem lýtur að þangi og þara, þessi eina lagagrein, 15. gr. a, annað var það ekki. Það kæmi í veg fyrir það að a.m.k. bandarískir fjárfestar kæmu og fjárfestu í þessum gríðarlega mikilvæga iðnaði sem gæti orðið næsta útflutningsævintýri Íslands, eins og Norðmenn kalla það. Þeir vilja meina að næsta útflutningsævintýri Noregs verði á sviði þangs og þara. Þeir eru þegar komnir með löggjöf á sviðinu og auka menntunarstig og kynna þetta hjá sér. En hvað erum við með? Jú, við erum með 15. gr. a eða b í lögum um stjórn fiskveiða. Annað er það ekki. Það er einmitt mjög mikilvægt að hafa lög og reglur á þeim sviðum sem lúta að fjárfestingum og hér er undir rýni erlendra fjárfesta. Frumvarpið heitir, með leyfi forseta: „Frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.“

Ef maður skoðar frumvarpið þá hefði það líka jafnvel mátt heita tilkynningarskylda erlendra aðila vegna fjárfestinga vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu, vegna þess að meginkaflar frumvarpsins lúta að tilkynningarskyldu til stjórnvalda er lýtur að viðkvæmum sviðum. Til dæmis lýtur allur II. kafli að viðeigandi ráðstöfunum innlendra rekstraraðila eða sem sagt skyldu til lengri tilkynningar vegna tiltekinna fjárfestinga og svo er talað um skyldu til styttri tilkynningar vegna tiltekinna fjárfestinga o.s.frv., en svo er það undir stjórnvöldum komið hvernig rýnin verður. Þar liggur vinna stjórnvalda og það liggur ekki alveg fyrir hvernig, finnst mér, stjórnvöld ætla að haga þeirri vinnu. Það getur orðið vinna að fara í þessa rýni þegar tilkynningarskyldur aðili, við getum kallað það svo, erlendur aðili sem ætlar að fara í fjárfestingar, er búinn að tilkynna inn, þá byrjar að vinna stjórnvalda. Ég tel að þessi skylda til að tilkynna ráðherra um viðskiptasamninga milli erlends aðila og innlends rekstraraðila sé ekki of íþyngjandi fyrir erlenda fjárfesta, að upplýsa um það hvort fjárfesting sem er á viðkvæmu sviði, sem talið er upp í 3. gr. frumvarpsins, ógni þjóðaröryggi eða sé öryggisógn. Þá er málið hér hvort það geti ógnað friðhelgi yfirráðasvæðis, sjálfstæði og fullveldi Íslands.

Ég tel að 3. gr. sé að mörgu leyti ófullkomin og ég fór í andsvör við hæstv. forsætisráðherra varðandi 3. töluliðinn þar sem segir að það eigi að tilgreina í reglugerð þá starfsemi og svið sem falla undir eftirfarandi liði og þar stendur í 3. tölulið, með leyfi forseta:

„Nýtingu vatnsorku, jarðvarma, vindorku, náma og annarra jarðefna í þjóðlendum.“

Það var að heyra á hæstv. forsætisráðherra að þessu hafi verið breytt, hefði verið ákveðið að þetta næði einungis til þjóðlendna með vísan til þess sem kom fram á samráðsstigi frumvarpsins. Ég tel að þetta ákvæði, um að það sé einungis tilkynningarskylda ef nýting vatnsorku og jarðvarma og vindorku og náma og annarra jarðefna er á þjóðlendum en ekki á fullkomnu eignarlandi, missi algerlega marks. Það er algjörlega verið að draga tennurnar úr þessu og raunverulega er ákvæðið nánast marklaust ef við horfum á þjóðlendur í landinu. Vatnsréttindi og jarðvarmaréttindi eru helstu verðmæti á landi, fullkomnu eignarlandi. Auðvitað á þetta að ná til alls landsins. Það er ekki bara ógn ef erlendur aðili ætlar að fara að kaupa og hefja nýtingu vatnsorku og jarðvarma o.s.frv. á þjóðlendum en ekki annars staðar í landinu. Það sjá allir þannig að þetta virðist vera hálfútvatnað ákvæði hvað það varðar og mikilvægt að það verði lagað.

Einnig er gríðarlega mikilvægt að þetta nái til kaupa og sölu á jörðum. Við getum ekki horft upp á það að fjársterkir aðilar úti í heimi séu að sölsa undir sig stóra landshluta. Erlendur fjárfestir frá Englandi, einn ríkasti maður Englands, er búinn að kaupa milli 40 og 50 jarðir. Hann safnar þessu eins og frímerkjum. Við verðum að muna að við erum 400.000 manna samfélag og verðum að standa vörð um fullveldi okkar og sjálfstæði gagnvart fjársterkum aðilum sem vilja kaupa hérna land eins og enginn væri morgundagurinn til að auka virðingu sína erlendis. Ég get tekið dæmi að á Englandi er landeignaaðall enn þá og það er mikill virðingarvottur og mikill status að eiga land og menn sem geta ekki keypt sér land í heimalandi sínu geta komið til Íslands og keypt það, gengið hér um sveitir og keypt land af fátækum bændum. Það er mjög mikilvægt að við stöndum vörð um þá friðhelgi yfirráðasvæðis hvað lýtur að því að Íslendingar eigi Ísland en ekki einhverjir aðrir. Ég hef ekki áhuga á að búa í landi þar sem við erum nýlenduþjóð í eigin landi og erlendir aðilar eiga allt Það er minnsta mál í heimi að búa til útibúið Ísland, hvort sem er í fjármálakerfinu eða annars staðar og ef við ráðum ekki okkar eigin innviðum þá er ekki mikið eftir af okkar sjálfstæði. Ég get tekið sem dæmi löggjöf um bann við erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi. Sömu rök og þau lög byggjast á eiga líka við um aðrar greinar, eins og varðandi eignarhald á landi og aðra mikilvæga innviði. Það var ekki út af neinu að við settum lög um það að eignarhald í sjávarútvegi ætti að vera í höndum Íslendinga en ekki einhverra annarra. Þau sjónarmið eigum við alltaf að hafa að hafa í huga þegar við horfum á þessi mál er lúta að erlendri fjárfestingu — eða þá skulum við bara fella þau lög úr gildi, selja kvótann, hann fer bara í eigu erlendra aðila. Þeir geta komið með kínverska verktaka eða einhverja til að veiða hérna fyrir okkur, það væri minnsta mál í heimi. Það kæmu verksmiðjuskip hér frá Rússlandi eða Kína og fiskuðu þetta upp og lönduðu, settu síðan pakkana á flutningaskip eins og er gert fyrir utan strendur Afríku, eins og er gert fyrir utan strendur Namibíu t.d. Hér er að miklu að huga og miklir hagsmunir hér á bak við sem er mjög mikilvægt að við horfum á.

Það kom fram hér áðan að í 23. gr. kemur fram reglugerðarheimild. Þar segir, með leyfi forseta:

„Áður en reglugerð er sett um nánari útlistun viðkvæmra sviða skv. 3. gr. skal ráðherra óska eftir sjónarmiðum frá ráðherrum …“

Hér er talað um nánari útlistun viðkvæmra sviða í reglugerð, viðkvæmra sviða sem fjallað er um í 3. gr. Ég gat ekki heyrt betur í ræðu hér áðan en að í því fælist reglugerðarheimild til þess að bæta við þá upptalningu sem er í 3. gr. Ráðherra hefur ekki heimild til þess. Hann hefur hins vegar heimild til að koma með nánari útlistun á því sem stendur í 3. gr., skýra nánar, þannig að þetta er ekki heimild til að auka við viðkvæm svið. Það er ekki hægt að segja að ráðherrann hafi heimild til að bæta einhverju við sem væru þá ný efnisatriði.

Það er endurskoðunarákvæði í þessu frumvarpi sem mun líklega verða nýtt, það er ákvæði til bráðabirgða og innan tveggja ára, eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á, frá gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, skal ráðherra afhenda Alþingi skýrslu um framkvæmd laganna og jafnvel koma fram afstaða til þess hvort rök standi til þess að þrengja lögin eða rýmka það sem lýtur að því hvað teljist viðkvæm svið þegar kemur að þjóðaröryggi, einnig varðandi reynslu af framkvæmdinni. Ég tel að þetta sé bara fyrsta skref sem við erum að fara í hvað þetta varðar og mikilvægt að frumvarpið verði að lögum og líka það að við stöndum vel að þessu núna í byrjun og höfum skýrar reglur og að við séum síðan ekki að íþyngja stjórnsýslunni um of. En ég er algerlega sammála því sem stendur í greinargerðinni að löggjöfinni er ekki ætlað að takmarka erlendar fjárfestingar, síður en svo. Ég held að það gæti verið til bóta fyrir erlendar fjárfestingar og þær myndu jafnvel aukast verði frumvarpið að lögum og þá getum við horft til annarra ríkja. Við erum að setja svipaða löggjöf og er í öðrum ríkjum og mikilvægt að við horfum til þeirra. En það er líka mikilvægt að við sníðum okkur lög og semjum lög sem snúa að íslenskum sérhagsmunum og sérstökum aðstæðum hér á landi og líta til þess að við eigum gríðarlega mikið land sem er óbyggt. Við erum fámenn í stóru landi og við eigum að sjá til þess að það sé í eigu Íslendinga, að það sé ekki verið að kaupa upp allar jarðir í landinu svo við endum á og sitjum kannski uppi með það að eiga minni hluta í okkar eigin landi. Önnur ríki gera það líka, þau gæta hagsmuna síns lands. Það virðist vera orðið hálfgert skammaryrði að gera það hérna á Íslandi, hvort sem það er í orkumálum eins og þriðja orkupakkanum eða öðrum málum sem lúta að fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.

Eins og kemur fram í frumvarpinu á bls. 54 þá er ekki fyrir að fara gögnum eða erlendum rannsóknum, t.d. frá Efnahags og framfarastofnuninni, OECD, sem sýna fram á að löggjöf um rýni erlendra fjárfestinga hafi neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu í viðkomandi ríkjum. Það er mikilvægt að hafa þetta hugfast í þessu sambandi. Hér er verið að skoða tilvik sem varða þjóðaröryggi og allsherjarreglu þannig að það eru engar sannanir fyrir því eða ekkert sem bendir til þess að þetta hafi neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu. Ég efast ekki um það að sérstaklega erlendir fjárfestingarsjóðir vilji hafa reglufestu, vilji hafa svona rýni og að umhverfið sé skynsamlegt og þetta sé ekki villta vestrið og það séu alls konar einstaklingar að koma hér jafnvel til að þvætta peninginn sinn. Það er það sem þeir vilja ekki koma nálægt. Þeir vilja ekki skaða orðstír sinn með því að fjárfesta á Íslandi í svoleiðis umhverfi. Þetta tengist kannski að því leyti lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Eins og kom fram áðan er nafn frumvarpsins frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu og eins og kemur fram í frumvarpinu um hugtakið allsherjarreglu þá segir, með leyfi forseta, að allsherjarregla sé:

„Aðstæður sem eru nauðsynlegur þáttur í sjálfstæðu, lýðræðislegu og öruggu samfélagi, þar á meðal almannaöryggi, almannaheilbrigði og friðhelgi borgaranna.“

Hér er verið að tala um nauðsynlegan þátt í sjálfstæðu, lýðræðislegu og öruggu samfélagi. (Forseti hringir.) Það tengist fyrri atriðum sem lúta að þjóðaröryggi og friðhelgi yfirráðasvæðis Íslands.