154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[15:59]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir andsvarið. Varðandi almenninga stöðuvatna þá segir í Mývatnsdóminum að handhafar ríkisvalds geti í skjóli valdheimilda sinna ráðið meðferð og nýtingu þeirra verðmæta sem þar eru innan almenninganna. Þá getur ríkið, geta handhafar ríkisvalds að sjálfsögðu, ef þess þarf, ráðstafað meðferðinni og nýtingunni. Það geta þeir í skjóli valdheimilda sinna. Það er enginn að tala um að menn fari að kasta eignarrétti sínum á almenninga. Almenningur er hugtak sem er búið að vera til frá miðöldum, þetta er úti um alla Evrópu. En svo kemur allt í einu hérna: Nei, við verðum að eiga þetta svo enginn annar fari að hirða þetta af okkur. Það verði allt í einu til nýtt landnám á Íslandi. En það er einfaldlega ekki þannig. Ég tel að þetta sé algjörlega óþarft ákvæði og gott dæmi um það þegar ríkið þarf að gnæfa gjörsamlega yfir öllu og þetta getur skapað vandræði fyrir bændur sem eiga kannski réttindi þarna og hafa átt áratugum saman, ef ekki árhundruðum saman. Þeir þurfa núna að fara að óttast það að krumla ríkisins ætli að fara að koma inn í almenninga stöðuvatna sem þeir raunverulega eiga, fyrir utan netlög þeirra.

Og talandi um víðsýni, ég get ekki annað en komið hér upp í andsvar við hæstv. forsætisráðherra, varðandi þessa stórkostlegu víðsýni með þessum þjóðlendulögum. Ég gætti nú hagsmuna 14 jarða á Vestfjörðum, kannski mun ég gera það með einhverjar jarðir í Breiðafirði, og ég get bara sagt að ég hef aldrei lent í öðru eins sjokki sem lögfræðingur að lesa þetta. Það eru bara dregnar línur eftir fjallsbrúnum og ríkið ætlar að hirða þetta allt saman. Það væri ágætt að byrja á námskeiði í því hvernig á að lesa landamerkjabréf Íslands, sérstaklega landamerkjabréfin fyrir 1919. Það er þannig að þú átt að lesa þetta með Jónsbókarákvæðum. Jónsbókarákvæðin sjá um netlögin og þau fjalla um vatnaskil til fjalla. Það gerðu lögmenn ríkisins ekki. Það er nákvæmlega sama núna í gangi. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra stöðvi þá kröfu núna á okkur sem erum núna eigendur eyja og skerja þar sem er blankó krafa á öll sker og allar eyjar í landinu (Forseti hringir.) nema það eru nokkrar undanþegnar. Þannig eru vinnubrögðin. Vinnubrögðin í þessum þjóðlendumálum er til háborinnar skammar og það verður rannsóknarefni (Forseti hringir.) fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar að skoða þessi mál. Ég vona að ég geti fylgst með ræðuhöldunum í dag kannski.

(Forseti (ÁsF): Ég minni hv. þingmann á að ræðutíminn er tvær mínútur.)