154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[16:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ja, bændur voru hvattir til þess, eins og ég rakti í minni ræðu hér, að leita réttar síns fyrir Mannréttindadómstólnum. Ég veit nú ekki til þess að það hafi verið gert. En það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er búið að halda hér víðs vegar um landið fundi meðal landeigenda og bænda sem allir hafa verið á sama veg, menn hafa verið mjög óánægðir með þessa framgöngu, þetta hafi verið með þeim hætti að beygt var af leið og þetta er ekki það sem menn áttu von á. Eins og ég sagði hér áðan í minni ræðu, landeigendur samþykktu þetta í upphafi og vildu eyða þessari óvissu og bændur vilja almennt eyða óvissu þegar kemur að landamerkjum. Það var einungis talað um að þessi lög ættu að vera í gildi í örfá ár. Síðan þekkjum við söguna og hvernig hún hefur þróast. En auðvitað kostar það fjármuni fyrir fólk að leita réttar síns og það gæti verið hluti af því að menn hafi ekki viljað fara lengra. En ég minni bara á að það var þannig í upphafi, að bændur og þeir sem voru að verja sig þurftu sjálfir að standa straum af málskostnaði. Það var það fyrstu árin en síðan var því breytt. Við höfum bara því miður séð fjölmörg dæmi þess að hér hafi verið farið offari og ríkisvaldið á bara að viðurkenna það. Nú hillir undir það að þessu verði loksins lokið. En svona eftir á að hyggja held ég að það hafi verið gerð fjölmörg mistök í þessu ferli af hálfu ríkisins.