154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[16:23]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, vissulega er núna að vera að fjalla um síðasta hlutann í þessari baráttu, þessum rannsóknarrétti gegn landeigendum í landinu, við getum orðað það þannig, rannsóknarréttur er svo sannarlega nafnið. Ég ætla nú ekki að tala um spænska rannsóknarréttinn en hann kemur upp í hugann. Það er farið í deilur við alla landeigendur í landinu í málum sem átti raunverulega að rannsaka, það átti að finna almenninga sem verið hafa að fornu og nýju, það var það sem átti að gera og sérstaklega á miðhálendinu. En það var ekki gert, það var farið út um allt og núna eru það eyjar og sker. Þar er það þannig, þar sem ég hef skoðað í Breiðafirðinum, að það er bara gerð krafa um allar eyjar og öll sker, sama hvað það heitir. Og þetta er víst úti um allt land. Þetta er líka í Húnavatnssýslu, Hvítserkur, og svo fyrir vestan Vík í Mýrdal, drangana þar sem er nýfallinn hæstaréttardómur eða fyrir nokkrum árum um hver ætti. Svo er undanþegið, svo er kippt út Heimaeyjunum. Ég hef skoðað landamerkjabréf sem ná til sjávar, miðlínan milli hólmans og lands, og allt sem er fyrir innan línuna á landamerkjabréfum er væntanlega eignarland landeigandans. Nei, ekki samkvæmt ríkinu. Þeir gera kröfu á allt saman. Þeir vilja fá úrskurð, hlusta ekki á neitt nema úrskurð óbyggðanefndar. Ritstjóri Morgunblaðsins skrifaði leiðara um þetta og sagði að það héldu engin bönd óbyggðanefnd. En það er ekki þannig. Það er fjármálaráðherra sem halda engin bönd, það er lögmaður fjármálaráðherra sem er að gera þessar kröfur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort það sé ekki kominn tími til þess að fjármálaráðherra — ég veit nú ekki hvort hún ætli að endurskoða þessa kröfugerð á hendur eigenda eyja og skerja, hún er samflokkskona hv. þingmanns — veit hann til þess að fjármálaráðherra ætli sér að endurskoða þessa kröfugerð gagnvart eyjum og skerjum? Ég er tilbúinn í lið til þess, með Alþingi, að sjá til þess að fjármálaráðherra endurskoði kröfuna gagnvart eigendum eyja og skerja vegna þess að hún er ekki í neinu samræmi við landamerkjabréfin (Forseti hringir.) á nokkurn einasta hátt og það er meira að segja verra en á Vestfjörðum. (Forseti hringir.) Þá þurfti maður að lesa Jónsbók samhliða en þarna virðist vera ráðist beint á beinan texta landamerkjabréfa.

(Forseti (ÁsF): Ég minni hv. þingmann á ræðutímann.)