154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[16:45]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og stutta svarið er nei, mér er ekki í fljótu bragði kunnugt um að það hafi verið slík álitaefni uppi hjá dómstólum fyrir setningu þjóðlendulaga, nú eða eftir hana, að það kalli á þá málsmeðferð þar sem er undantekningarregla að eyða óvissu og segja að ríkið setji á fót stjórnsýslunefnd, lýsi kröfum og fjalli um málið. Mér er ekki kunnugt um slíkt. Þess vegna er ég að koma inn á það að ég sé ekki rökin fyrir því að óbyggðanefnd eigi að taka núna fyrir landssvæði 17 — eða 12, ég veit ekki alveg hvernig þessu er skipt — af því að þær forsendur sem lágu til grundvallar við setningu þjóðlendulaga, um mikilvægi þess að eyða óvissu og skera úr um ágreining, eru hreinlega ekki til staðar. Þær eru hreinlega ekki til staðar. Og það kemur eitthvað fram hér og það er meingallað eins og sést á kröfugerð ríkisins í þetta svæði. Ríkið telur að það geti bara gert kröfu um að allar eyjar, hólmar og sker á Breiðafirði séu þjóðlendur. Þá er ég viss um að forfeðrum mínum sem bjuggu í Svefneyjum og Skáleyjum væri nú heldur brugðið ef það kæmi í ljós að þeir ættu ekki eyjuna sem þeir áttu og bjuggu á og ættin mín í margar aldir. Það er auðvitað mjög sérstakt að ríkið skuli með þessari kröfugerð gera að engu nýtingu þessara eyja og hlunninda og búsetu árhundruðum saman.