154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[16:47]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er gott að vita að það er enginn dómur sem er þarna á bak við sem réttlætir að íslenska ríkið geti lýst yfir eignarrétti sínum og líka að handhafar ríkisvalds geti í skjóli valdheimilda sinna ráðið meðferð og nýtingu eyja og skerja. Það er gott að vita það.

Við virðumst vera komnir frá miðhálendisdómnum um Landmannaafrétt, Landmannaafréttardómnum hinum síðari, og yfir í Mývatnsbotnsdóminn 1978 og komnir út um allt land og svo verður farið núna á síðasta svæðið. Ég held að þessi kröfugerð núna í eyjar og sker, sem er eiginlega kröfugerð í allar eyjar og sker í landinu og svo er eitthvað aðeins undanþegið, Heimaeyjarnar yfirleitt, að hún sé vegna þess að þeir treystu sér ekki að beita heimildunum til að krefja landeigendur um að gera kröfur og gera grein fyrir eignum sínum gagnvart ríkisvaldinu vegna þess að það er brot á meðalhófi, það er brot á friðhelginni og í þriðja lagi og ekki síst hefðu landeigendur einfaldlega ekki gert þessar kröfur. Þeir hefðu sagt: Við látum það ógert, ég á þetta og ég ætla að eiga mína eign í friði. Þá tekur ríkisvaldið það upp og gerir kröfur bara hreinlega í allt saman þannig að allir verða að verjast, svo að það liggi fyrir.

Ég verð að lýsa yfir miklum áhuga á að skoða þessa breytingartillögu sem ég tel mjög áhugaverða. Ég tel að grundvöllur hennar sé fyrir hendi ef við horfum á hæstaréttardómana og líka að hér er gott að Alþingi stígi inn í og stöðvi þessa gjörninga sem fjármálaráðherra er búinn að standa fyrir á undanförnum árum. Ég efast um að þessum málum sé lokið, ég verð að segja alveg eins og er.

Ég bara lýsi yfir áhuga á þessu máli, þessari breytingartillögu og vildi vekja máls á því hvort það væri grundvöllur þar fyrir. Ég tek algjörlega heils hugar undir það að menn eru algerlega forviða yfir þessu. Það eru samningar undir við Breiðafjörðinn varðandi þangvinnslu og annað slíkt sem eru í hættu og fólk raunverulega getur orðið fyrir stórtjóni hvað þetta varðar. Kannski hann geti frætt (Forseti hringir.) okkur um hvort við vitum um það í Breiðafirði (Forseti hringir.) að menn þar séu uggandi og verði fyrir miklu tjóni.