154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[17:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Þó finnst mér mikilvægt að halda nokkrum atriðum til haga hér í lok hennar. Hér hefur heyrst það sjónarmið að upphaflegt markmið laganna hafi verið að þessi lög ættu eingöngu að ná til hálendisins. Það hefur hins vegar verið ítrekað fyrir Hæstarétti að svo er ekki. Hæstiréttur hafnaði þeirri túlkun og þar vitna ég til dóms sem féll árið 2008. Það mál var höfðað á því að lögin hefðu eingöngu átt að taka til hálendisins og suðvesturhornið hefði átt að falla utan við gildissvið laganna en Hæstiréttur hafnaði því og sagði ótvírætt að lögin tækju til alls lands, hvort sem er á hálendi Íslands eða utan þess.

Af því að hér var rætt að mögulega væri rétt að skjóta þessum málum til Mannréttindadómstólsins og kanna það hvort fyrirkomulagið stæðist þá vil ég rifja það upp að þeim hefur verið skotið til Mannréttindadómstólsins. Niðurstaða dómstólsins var að þetta bryti ekki gegn mannréttindasáttmála Evrópu og kæru um brot á 1. gr. við viðauka nr. 1, um vernd eignarréttar, var hafnað. Það er líka mikilvægt að halda því til haga.

Hér var líka rætt um þrjá almenninga, þ.e. hálendið, hafið og stöðuvötn. Um hálendið hefur verið fjallað. Íslenska ríkið hefur þegar lýst yfir eignarrétti ríkisins að hafsbotninum utan netlaga með lögum nr. 73/1990 og einu almenningarnir sem eru eftir eru almenningar stöðuvatna, þannig að ég verð að segja það, herra forseti, að ýmsu hefur verið haldið fram sem mér finnst nú mikilvægt að sé fært til réttari vegar og ítreka þá afstöðu mína að þessi lagasetning var vissulega framsýn. Það er hins vegar mikilvægt að verkinu verði lokið.

Hér hefur líka verið rætt mikið um kröfugerðir en minna um niðurstöður, niðurstöður óbyggðanefndar. Kröfugerðir fjármálaráðuneytisins eru eitt en það er niðurstaðan sem skiptir máli í þessu. Ég ítreka það að ég lít á þetta frumvarp sem mjög mikilvægt skref í því að ljúka þessum málum.

Ég vil líka segja að sú breytingartillaga sem hér var boðuð, um að hætta umfjöllun um eyjar og sker, finnst mér harla kúnstug, satt að segja, herra forseti, í ljósi þess að við hljótum að láta eina reglu gilda um landið allt. Eyjar og sker eru hluti af landinu öllu eins og aðrir landshlutar þannig að ég held að við séum komin út á hálan ís, satt að segja, þó að einhverjir hv. þingmenn, og það er fullkomlega eðlilegt, kunni að hafa efasemdir um bara markmið þjóðlendulaganna frá upphafi og gildi þeirra og því hefur verið haldið fram líka og ég virði þá afstöðu. En sé ætlunin að standa með markmiði þessara laga og að ljúka þessu verki þá get ég ekki fallist á að það verði horfið frá því að fjalla um eyjar og sker og ég get ekki fallist á það að það sé ekki mikilvægt að ljúka vinnunni hvað varðar almenning í stöðuvötnum rétt eins og hafsbotninn og hálendið.

Ég læt þessu að öðru leyti lokið, herra forseti, og þakka fyrir umræðuna og legg til aftur að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.