154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

heilbrigðisþjónusta.

728. mál
[17:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, um fjarheilbrigðisþjónustu. Í frumvarpinu er lagt til að skýringu á fjarheilbrigðisþjónustu verði bætt við lögin ásamt frekari skýringum á þeirri þjónustu sem flokkast þar undir. Tilgangurinn er að skýra og samræma hugtakanotkun um fjarheilbrigðisþjónustu og stuðla að sameiginlegum skilningi á eðli, eiginleikum og nýtingarmöguleikum slíkrar þjónustu. Í frumvarpinu eru settar fram skilgreiningar á því hvaða þjónusta, tæknilausnir, verkefni og verklag falla undir hugtakið fjarheilbrigðisþjónusta.

Frumvarpið er í samræmi við gildandi stefnu ráðuneytisins um stafræna heilbrigðisþjónustu sem byggist á þremur meginmarkmiðum; að virkja einstaklinginn sem þátttakanda í eigin meðferð og heilsueflingu, auka samhæfingu milli kerfa og styðja við nýsköpun og eflingu vísinda og rannsókna. Þeim markmiðum á m.a. að ná með því að tryggja stöðuga þróun og markvisst samstarf í þágu bættrar heilbrigðisþjónustu.

Mikil tækniþróun hefur orðið á síðustu árum og miklar framfarir hafa átt sér stað í fjarheilbrigðisþjónustu sem er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu. Gildandi löggjöf þarf að taka mið af þeirri þróun og styðja við hana til að fjarheilbrigðisþjónustan nýtist til fulls við samskipti, greiningu, meðferð og við veitingu fjölbreyttrar þjónustu við sjúklinga. Með veitingu fjarheilbrigðisþjónustu má einnig draga úr tímafrekum ferðalögum sjúklinga sem þurfa að sækja sérhæfða þjónustu í öðrum landshlutum með tilheyrandi raski á daglegu lífi og tilkostnaði.

Með frumvarpinu er ætlunin að tryggja að sjúklingar, heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisstofnanir fái notið þeirrar hagkvæmni sem í fjarheilbrigðisþjónustu felst. Með fjarheilbrigðisþjónustu er hægt að nýta betur mannauð, efla samvinnu milli stofnana og landsvæða, auka hagkvæmni, gera þjónustu aðgengilega óháð búsetu og stuðla að nýsköpun. Með aukinni fjarheilbrigðisþjónustu má einnig auka framboð af fjölbreyttri þjónustu til að koma til móts við mismunandi þarfir sjúklinga og nýta fjölbreytta menntun og reynslu heilbrigðisstarfsmanna.

Notkunarmöguleikar fjarheilbrigðisþjónustu eru fjölmargir og þróunin á þessu sviði er hröð. Ljóst er að ávinningurinn af árangursríkri innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu er ótvíræður fyrir sjúklinga, fyrir heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og samfélagið í heild. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja lagastoð fyrir slíkri þjónustu og stuðla að sameiginlegum skilningi á því hvernig nýta eigi fjarheilbrigðisþjónustu til að tryggja gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga sem er tilgangur þessa frumvarps. Áframhaldandi innleiðing fjarheilbrigðisþjónustu er þannig liður í því að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðisþjónustu með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og aukinni eftirspurn eftir þjónustu. Við þekkjum þá umræðu, að manna stofnanir okkar með okkar helsta fagfólki til að mæta aukinni eftirspurn sem hlýst auðvitað af því að okkur fjölgar og af öðrum lýðfræðilegum þáttum eins og þeim að við erum að eldast sem þjóð og lífslíkur við fæðingu hafa lengst, m.a. vegna góðs heilbrigðiskerfis en auðvitað fjölmargs annars. Fjarheilbrigðisþjónusta er þróun sem er ótvíræð og ótvíræður valkostur til að uppfylla þau markmið sem við setjum okkur um að veita aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Áframhaldandi innleiðing fjarheilbrigðisþjónustu er þannig liður í því að mæta þessum áskorunum.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu verði áfram gert skylt að uppfylla fyrirmæli um upplýsingaöryggi við skipulagningu og veitingu fjarheilbrigðisþjónustu. Þannig stuðlum við að öruggri notkun tæknilausna við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu til að tryggja vernd viðkvæmra upplýsinga og hagsmuni þeirra sem nýta sér þjónustuna. Það þýðir jafnframt að gerðar eru sömu kröfur til fjarheilbrigðisþjónustu og gerðar eru almennt til annarrar þjónustu og til samskipta heilbrigðisstarfsmanna og sjúklinga, svo sem að fyllsta öryggis sé gætt við skráningu, meðferð og vistun gagna sem innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar.

Ég vil líka, virðulegi forseti, draga það fram að fyrir nokkrum árum, það er farið yfir það í greinargerð með frumvarpinu, þegar við fjölluðum um frumvarp um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, þá voru ýmsar breytingar þar undir. Þá voru gerðar athugasemdir við að það vantaði í það frumvarp skilgreiningu á hugtakinu fjarheilbrigðisþjónusta og á öðrum hugtökum sem því fylgja. Við erum auðvitað á hraðri leið, eins og ég fór hér yfir fyrr í máli mínu, og í stöðugri þróun á stafrænum samskiptum og fjartæknilausnum. Velferðarnefnd Alþingis gerði þá athugasemd að það vantaði skilgreiningu og setti bráðabirgðaákvæði inn í lög um heilbrigðisþjónustu sem hér er jafnframt lagt til að falli niður. Í millitíðinni skilaði heilbrigðisráðherra skýrslu til Alþingis um fjarheilbrigðisþjónustu og skilgreiningu á henni. Ég held að vinnulagið hér speglist vel í vinnu nefnda og þessu mikilvæga hlutverki Alþingis, hér er eitt dæmi um slíkt og hér erum við þá að bregðast við. Þetta frumvarp eins og það liggur fyrir hér fór í samráð og það er bara vel til fallið að hv. velferðarnefnd taki núna við málinu fyrir 2. umræðu.

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi gert grein fyrir öllum efnisatriðum málsins og legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umræðu.