154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

heilbrigðisþjónusta.

728. mál
[17:32]
Horfa

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir (V):

Forseti. Ég fagna því að fjarheilbrigðisþjónusta sé hér til umræðu. Við í Viðreisn leggjum ríka áherslu á að nýta stafræna tækni til að tengja betur fagfólk og íbúa í byggðum landsins og stuðla þannig að jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta er þar lykilatriði.

Mig langaði aðeins að snerta á stöðu barna í heilbrigðiskerfinu en hún er alls ekki nógu góð og þaðan af síður er hún betri í geðheilbrigðiskerfinu og biðlistar barna lengjast með fleiri tilvísunum. Við þurfum að grípa til ráða vegna þeirrar stöðu og það er mikilvægt að hæstv. ráðherra fari í aðgerðir sem stuðla að jöfnu og hröðu aðgengi barna að geðheilbrigðisþjónustu. Að stuðla að aukinni fjarheilbrigðisþjónustu er ein leið til þess. Hún er góð og mikilvæg. En við megum ekki gleyma því heldur að horfa á heildarmyndina. Til að mynda þurfum við að fara í aðgerðir sem fjölga þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki á borð við sálfræðinga, bæði með aukinni fjárveitingu en fyrst og fremst með áherslu á þjálfun. Þar að auki skiptir máli að ríkisstjórn standi við landslög sem heimila niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu fyrir alla og endurskoði rammasamning við sálfræðinga sem fyrst svo að fleiri sjái sér hag í því að heyra undir þann samning eða í það minnsta að það sé skoðað hvað veldur því að ekki fleiri sálfræðingar kjósi þann möguleika. Biðlistar barna fara minnkandi í þriðju línu þjónustu en þess í stað erum við að sjá mikla aukningu á biðlistum á öðrum stigum heilbrigðiskerfisins. Ég er sannfærð um að með því að auka áherslu á fjarheilbrigðisþjónustu í landinu munum við stuðla að betri nýtingu mannauðs í heilbrigðisþjónustu og auknu aðgengi barna á öllu landinu að heilbrigðisþjónustu. Þess vegna er þetta frumvarp mikilvægt og ég fagna því að við séum að ræða þetta mál af alvöru. Svo hlakka ég til að sjá hæstv. ráðherra að ráðast í frekari aðgerðir til að tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, þá sérstaklega með niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu.