154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvernig getur það átt sér stað að nær fjórir af hverjum tíu einstaklingum á vinnumarkaði eigi erfitt með að ná endum saman og að 11% launafólks búi við skort á efnislegum gæðum og að hlutfallið hafi hækkað milli ára? Þarna stendur barnafólk verst. Fjárhagsstaða foreldra hefur versnað mest og það glímir við þyngri byrði húsnæðiskostnaðar en barnlausir og hefur ekki efni á grunnþáttum fyrir börnin sín. Þetta er m.a. það sem kom fram í Morgunblaðinu í morgun um niðurstöður könnunar Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins á lífsskilyrðum launafólks innan ASÍ og BSRB, sem kynnt var í gær. Geta þessi börn beðið lengur eftir réttlætinu eða því að grunnþarfir þeirra séu virtar? Í könnuninni kom fram að tæplega tveir af hverjum tíu foreldrum hafi ekki ráð á að gefa börnum sínum afmælis- og/eða jólagjafir og lítið lægra hlutfall getur ekki greitt kostnað vegna skipulagðrar tómstunda. Einnig kom fram að staða einhleypra foreldra er mun verri en sambúðarfólks og hærra hlutfall þeirra hefur ekki efni á grunnþáttum fyrir börnin sín. Hvað um börn fólks á lífeyrislaunum frá TR sem býr ekki bara við fátækt heldur sárafátækt? Hvernig haldið þið að þeirra grunnþarfir séu í dag og það að geta gefið börnum sínum afmælis- og/eða jólagjafir eða geta greitt kostnað við skipulagðar tómstundir?

Við erum með þúsundir barna í fátækt og að bíða eftir lögbundinni þjónustu, sem er skýlaust brot á mannréttindum þeirra. Þá erum við með börn föst svo árum skiptir á ýmsum biðlistum í biðlistamenningu ríkisstjórnarinnar sem eru mjög skaðlegir líkamlega og andlega fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. Að tala um farsæld barna á sama tíma og fjöldi þeirra er á biðlista eftir sjálfsagðri og lögbundinni þjónustu í skóla-, félags- og heilbrigðiskerfinu er gersamlega óásættanlegt. Eitt barn með foreldrum sínum í fátækt og á biðlista eftir lögbundinni þjónustu er einu barni of mikið. Um það getum við öll verið sammála.