154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

fjölmiðlar.

32. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, EES-reglur, hljóð- og myndmiðlun. Ég mæli fyrir þessu nefndaráliti í forföllum framsögumanns.

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 14. nóvember 2018 um breytingu á tilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og það bárust umsagnir eins og greint er frá í nefndaráliti sem liggur frammi á þskj. 1108.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar árétta eftirfarandi sérstaklega:

Fyrst um aukna vernd barna. Með frumvarpinu er kveðið nánar á um vernd barna gegn skaðlegu efni fjölmiðlaveitna sem miðla hljóð- og myndefni, m.a. að auðkennt verði með myndtáknum sem skýra með hvaða hætti efnið sé skaðlegt börnum. Auk þess er kveðið nánar á um vernd persónuupplýsinga barna í viðskiptalegum tilgangi, svo sem í tengslum við beina markaðssetningu eða gerð og notkun persónusniðs og einstaklingsmiðaðra auglýsinga.

Jafnframt er mælt fyrir um skyldur mynddeiliveitna þegar kemur að vernd barna en með frumvarpinu er lagt til að við lögin bætist nýr kafli er mæli fyrir um réttindi og skyldur mynddeiliveitna, sem eru nýmæli í lögunum. Mynddeiliveitur skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda börn fyrir efni, notandaframleiddu efni, sem sagt efni sem notendur framleiða, og viðskiptaboðum er skaðað geta líkamlegan, andlegan eða siðferðislegan þroska. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að skaðlegt efni og hatursorðræða sem fyrirfinnst á mynddeiliveitum hafi vakið áhyggjur, sérstaklega þar sem börn og unglingar nota oft slíka þjónustu. Inn á þetta er sérstaklega komið í aðfaraorðum tilskipunarinnar. Markmið ákvæðisins er að vernda börn og almenning fyrir slíku efni með því að setja viðeigandi og hóflegar reglur um miðlun þess. Efni á mynddeiliveitum er aðeins að litlu leyti ritstýrt þar sem því er hlaðið inn af notendum og er efnið oft flokkað með sjálfvirkum kerfum. Mikilvægt er að mynddeiliveitur geri viðeigandi ráðstafanir til að vernda börn gegn efni sem getur haft skaðleg áhrif á þau.

Þá er með frumvarpinu mælt fyrir um aukna vernd barna gegn viðskiptatilboðum, sérstaklega gegn kostun barna- og unglingaefnis. Verður því óheimilt að aðilar sem stunda viðskipti kosti barna- og unglingaefni og á það bæði við um einkaaðila og lögaðila en þó verður góðgerðarsamtökum og mannréttindafélögum kleift að miðla fræðslu til barna og unglinga.

Meiri hlutinn telur brýnt að breytingar sem varða aukna vernd barna nái fram að ganga. Með örri tækniþróun og auknu aðgengi að m.a. mynddeiliveitum er mikilvægt að kveða á um vernd barna gegn skaðlegu efni og markaðssetningu.

Næst er sérstaklega fjallað um réttindi sjón- og heyrnarskertra en meiri hlutinn telur jafnframt brýnt að auka aðgengi og réttindi sjón- og heyrnarskertra, svo sem rétt til táknmáls, textunar og hljóðlýsingar á efni sem miðlað er, enda er það lykill að upplýsingum og menningu. Aukinn aðgangur sjón- og heyrnarskertra að efni fjölmiðlaveitna varðar réttindi á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur fullgilt.

Fyrir nefndinni kom fram að þær breytingar sem frumvarpið mæli fyrir um séu til bóta en bent á að það skorti á skýra ábyrgð og viðurlög við því ef þessum skyldum sé ekki sinnt. Í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytis til nefndarinnar frá 25. janúar segir hvað þetta varðar að ákvæðið sé í eðli sínu matskennt og þar með vandkvæðum bundið að mæla fyrir um viðurlög vegna brota gegn því. Þá sé orðalagið í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar og væri því gengið lengra en nauðsynlegt er með því að kveða á um viðurlög.

Meiri hlutinn undirstrikar það sem fram kemur í greinargerð, að með breytingunni sé fastar að orði kveðið en í fyrri hljóð- og myndmiðlunartilskipun. Ekki verði lengur um tilmæli að ræða þegar kemur að því að gera þjónustu aðgengilega sjón- og heyrnarskertum heldur verði fjölmiðlaveitum nú gert skylt að endurmeta stöðugt hvort möguleiki sé á að bæta þjónustu þeirra við sjón- og heyrnarskerta, sem og að gera áætlanir þar um. Meiri hlutinn telur að með frumvarpinu sé stigið skref í rétta átt.

Þá er lagt til að fjölmiðlanefnd skuli birta upplýsingar á vef sínum um kröfur sem gerðar eru til fjölmiðla um aðgengi sjón- og heyrnarskertra að fjölmiðlaefni, og gera sjón- og heyrnarskertum kleift að koma kvörtunum vegna brota á lögunum á framfæri í vefgátt á einfaldan og aðgengilegan hátt. Jafnframt sé mikilvægt, líkt og Öryrkjabandalag Íslands bendir á í umsögn sinni, að nýting stafrænna lausna skipti máli þegar kemur m.a. að textun á myndefni fjölmiðla.

Ef ég leyfi mér að bæta örlitlu við þetta hefur ítrekað komið fram í umfjöllun allsherjar- og menntamálanefndar um mál sem tengjast aðgengi að íslenskunni til að mynda um mikilvægi þess að nýta tæknina við textun á efni.

Þá áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að kveða á um þá kröfu að útsendingar á tilkynningum vegna almannaöryggis skuli vera á þá vegu að sjón- og heyrnarskertir einstaklingar geti skilið þær, samanber skyldur vegna almannaheilla skv. 31. gr. laga. Líkt og kemur fram í greinargerð verður að vega og meta hvert tilvik fyrir sig en þó með hliðsjón af þeirri meginreglu að tryggja aðgengi og réttindi sjón- og heyrnarskertra.

Þá er það næsta sem nefndarmeirihlutinn dregur fram umfjöllun um bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi. Í 27. gr. fjölmiðlalaga er kveðið á um að fjölmiðlum sé óheimilt að hvetja til refsiverðrar háttsemi og kynda undir hatri á grundvelli tilgreindra þátta, m.a. kynþáttar, kynferðis, trúarskoðana o.fl. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðinu, annars vegar nýmæli um að óheimilt sé að hvetja til hryðjuverka og hins vegar að við ákvæðið bætist tilgreindir þættir. Nefndin fjallaði um verndarandlag ákvæðisins og þá hópa sem eru tilgreindir og bætast við ákvæðið. Í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytis til nefndarinnar 20. febrúar 2024 er rakið að ákvæði 27. gr. fjölmiðlalaga eigi sér fyrirmynd í 6. gr. hljóð- og myndmiðlunartilskipunarinnar, auk þess sem það á sér samsvörun í tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R (97) 20 um bann við hatursáróðri í fjölmiðlum.

Þá fjallaði nefndin um þá breytingu sem er lögð til með frumvarpinu um að fella brott úr 27. gr. laganna skilyrði um að fjölmiðlar kyndi undir hatri með markvissum hætti. Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu felur það þó ekki í sér að fjölmiðill geti þurft að sæta ábyrgð vegna einstakra ummæla heldur virkjast ábyrgð samkvæmt ákvæðinu til að mynda ef fjölmiðillinn í endurteknum tilvikum gerir engar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að viðmælendur eða dagskrárgerðarfólk viðhafi hatursfull ummæli eða áróður. Í minnisblaði ráðuneytisins frá 20. febrúar er þess jafnframt getið að breytingin sé til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar en í framkvæmd hafi orðalagið skapað ákveðinn þröskuld fyrir beitingu ákvæðisins, sem sagt fyrra orðalag skapaði ákveðinn þröskuld.

Tilgangur þessara breytinga sé að veita almenningi aukna vernd vegna hatursorðræðu, hvatningu til hryðjuverka og annarrar refsiverðrar háttsemi í fjölmiðlum og á mynddeiliveitum.

Þá er fjallað um auknar skyldur fjölmiðlaveitna og mynddeiliveitna. Með frumvarpinu eru lagðar auknar skyldur á fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni eftir pöntun til að tryggja að evrópskt efni á veitum þeirra sé að lágmarki 30% af framboði þeirra og að efnið sé sýnilegt, þar undir fellur íslenskt efni. Meiri hlutinn telur þær breytingar til bóta og m.a. til þess fallnar að auka menningarlegan fjölbreytileika og dreifingu á evrópsku og íslensku efni.

Sama á við um auknar skyldur mynddeiliveitna en með frumvarpinu verða ákveðnir þættir í starfsemi þeirra felldir undir fjölmiðlalög þótt slíkar veitur séu ekki fjölmiðlar í eðli sínu. Meðal annars er þess krafist að mynddeiliveitur auðveldi notendum sínum að tilkynna efni sem fer gegn reglum þeirra og ákvæðum laga. Þá mun starfsemi mynddeiliveitna, innan íslenskrar lögsögu, falla undir eftirlitshlutverk fjölmiðlanefndar sem sinnir þegar eftirliti með fjölmiðlum og fjölmiðlaveitum.

Einnig má geta þess að með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem eiga að veita fjölmiðlum meira svigrúm hvað varðar ráðstöfun auglýsingatíma, sem er ætlað að koma til móts við kröfur auglýsenda og flæði áhorfenda á mismunandi tímum.

Fyrir nefndinni komu fram ýmsar ábendingar, m.a. varðandi stöðu á fjölmiðlamarkaði og hlutverk Ríkisútvarpsins, en meiri hlutinn áréttar að ekki er tilefni til að bregðast við slíkum ábendingum í þessu frumvarpi. Líkt og fram kemur í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytis til nefndarinnar frá 25. janúar mælir frumvarpið ekki fyrir um aðrar breytingar en leiðir af tilskipun 2018/1808/ ESB um breytingu á hljóð- og myndmiðlunarþjónustu. Þó telur meiri hlutinn rétt að geta þess að gildissvið fjölmiðlalaga er víðtækara og nær til allra fjölmiðla, sbr. 13. gr. frumvarpsins sem breytir 27. gr. laganna um bann fjölmiðla við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi.

Það liggur fyrir að starfandi er starfshópur á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis um gjaldtöku af erlendum streymisveitum og tæknirisum sem er ætlað að taka til athugunar gjaldtöku af fjölmiðlaveitum sem miðla myndefni eftir pöntun, samanber einnig valkvætt ákvæði 2. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar. Verði lagðar til breytingar á lögum hvað það varðar má vænta þess að slíkt komi fram í öðru frumvarpi um menningarframlag fjölmiðlaveitna þegar yfirstandandi vinnu á vegum ráðuneytisins lýkur, eins og sjá má í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Þá má geta þess að menningar- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjölmiðlastefnu.

Þá vík ég að breytingartillögum meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar tímabundna stöðvun á móttöku myndmiðlunarefnis frá öðrum EES-ríkjum, sem er 6. gr. Við umfjöllun um málið óskaði nefndin eftir skýringum frá menningar- og viðskiptaráðuneyti á misræmi milli orðalags 6. gr. frumvarpsins og samsvarandi ákvæði í hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB þar sem kveðið er á um að einungis sé heimilt að stöðva móttöku myndmiðlunarefnis frá öðrum EES-ríkjum tímabundið ef fjölmiðlaþjónusta skaðar lýðheilsu eða stefnir henni í alvarlega og verulega hættu. Í minnisblaði ráðuneytisins frá 20. febrúar er lögð til breyting á 6. gr. frumvarpsins til að tryggja að ekki verði dregið úr kröfum sem eru gerðar til íhlutunar af því tagi sem fjallað er um í 5. gr. fjölmiðlalaga. Meiri hlutinn tekur undir framangreint og leggur til breytingu þess efnis.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar upplýsingagjöf á vef fjölmiðlanefndar um aðgengi sjón- og heyrnarskertra. Í umsögn fjölmiðlanefndar um málið er lagt til að ný málsgrein skv. 10. gr. frumvarpsins, sem varðar starfssvið fjölmiðlanefndar, verði frekar bætt við 21. gr. laganna. Samhliða er lagt til að fyrirsögn 21. gr. laganna verði „Upplýsingagjöf á vef fjölmiðlanefndar“. Meiri hlutinn tekur undir ábendinguna og leggur til breytingu þess efnis.

Að lokum leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökuákvæði og leggur til að lögin öðlist þegar gildi, auk þess sem lagðar eru til breytingar sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki frekari skýringa.

Að framangreindu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, formaður nefndarinnar, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, framsögumaður málsins, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Brynhildur Björnsdóttir, Magnús Árni Skjöld Magnússon og Eyjólfur Ármannsson.