154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[16:19]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans mál hér og styð hann í þeim aðgerðum sem hann hyggst grípa til. Í þessu frumvarpi er auðvitað af hinu góða að verið sé að tryggja réttarstöðu leigjenda, bæði með þessari svokölluðu leiguskrá en ekki síður að það séu ekki bara geðþóttaákvarðanir leigusala með hvaða hætti verið er að breyta leigu og stundum án nokkurs fyrirvara.

Ráðherrann nefndi viðvarandi skort á húsnæði og nefndi sveitarfélögin af því tilefni, að þau þyrftu að bjóða upp á fjölbreyttar lóðir, ég held að hann hafi orðað það þannig, á hagkvæmu verði. Mér finnst að það standi ekkert á sveitarfélögunum að gera þetta en mörg sveitarfélög fá inn gatnagerðargjald til að búa til götur í kringum húsin en ráða flest illa við að byggja upp þá innviði sem fylgja því að búa til ný hverfi. Það þarf hugsanlega að byggja leikskóla, það þarf að byggja grunnskóla, það getur þurft að byggja íþróttahús eða sundmiðstöð eða bókasafn þannig að það er ýmislegt sem tilheyrir eða er á forræði sveitarfélaga sem þau ráða illa við af því að við vitum að 60% af innkomu sveitarfélaga fer bara beint í laun. Það er ekki mikið eftir. Mörg sveitarfélög hafa farið í það að rukka svokallað innviðagjald sem af mörgum hefur verið talið ólögmætt. Ég velti þessari spurningu upp: Sjáum við einhverja möguleika til að koma til móts við sveitarfélögin (Forseti hringir.) þannig að þau geti ráðið við að byggja upp hverfi til að mæta þessum skorti á húsnæði sem blasir við okkur?