154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[16:21]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Umræða um tekjustofna sveitarfélaganna gæti verið mjög þörf hér. Það er auðvitað ljóst að langsamlega flest sveitarfélög ráða við þá uppbyggingu. Þegar hún er mjög hröð og pressan eykst þá getur þetta auðvitað verið tímabundið erfitt ef það þarf að stækka mjög hratt, bæði ryðja mikið af nýju landi og jafnvel kaupa land ef menn vilja eiga landið sjálfir til að geta stjórnað uppbyggingunni og á sama tíma þarf hugsanlega að byggja bæði leikskóla og grunnskóla og aðra þá þjónustu sem íbúar í því hverfi þurfa að njóta. Það er hins vegar auðvitað þannig að annars vegar eiga þau gjöld sem falla á byggingaraðilana, gatnagerðargjöld, lóða- og veitugjöld og annað, að standa undir stórum hluta af því sem þar fer fram og síðan eiga fasteignagjöld og útsvar og aðrar tekjur sveitarfélagsins að standa undir bæði rekstri og uppbyggingu þessara mannvirkja sem hv. þingmaður nefndi, þó að það geti vissulega komið fyrir og hafi gerst á síðustu árum í umtalsverðum mæli, þar sem hraður vöxtur er, að sveitarfélög hafi einfaldlega ekki undan og það séu vaxtarverkir. Ég held að við ættum ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því.

Hv. þingmaður nefndi innviðagjöldin. Það er eitt af því sem við í ráðuneytinu höfum hug á að skoða og erum að vinna að, með það að markmiði að koma jafnvel með frumvarp í vetur ef að líkum lætur, á yfirstandandi þingi, um innviðagjöldin. Ef við erum á sama tíma að tala um hagkvæmar lóðir og uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði, jafnvel fyrir viðkvæma hópa, þá gengur það auðvitað þvert gegn því ef sveitarfélagið leggur á himinhá innviðagjöld á sömu lóð og gerir þar af leiðandi húsnæðið umtalsvert dýrara en ella hefði þurft að vera. Það er einfaldlega þannig að bæði ríki og sveitarfélög (Forseti hringir.) þurfa að koma saman að því verkefni að skaffa hagkvæmar byggingarhæfar lóðir.