154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[16:54]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Frumvarp það sem við höfum hér til umfjöllunar hefur þann tilgang og það markmið að auka réttarvernd og húsnæðisöryggi leigjenda hér á landi. Það er göfugt markmið og góður ásetningur fylgir frumvarpinu. En það er oft með góðan ásetning að hann er ekkert nema góður ásetningur. Það er oft góður ásetningur hjá mörgum í janúar að fara í líkamsræktarstöðina en það verður ekkert annað en góður ásetningur. Það sem við höfum hér í höndunum eru atriði sem svipar um margt til þess að verið sé að reyna að stýra markaðnum, reyna að setja honum einhverjar skorður, setja samningsfrelsinu skorður, setja eignarréttinum skorður til að ná fram markmiðum sem kallast þá í þessu tilviki réttarvernd og húsnæðisöryggi. Það er eins með mörg efnisatriði þessa frumvarps og þær hugmyndir sem eru oft mjög á sveimi að það er talið mjög skynsamlegt fyrir leigjendur, til að auka réttarvernd þeirra og bæta stöðu þeirra, að setja á leiguþak, að setja á leigubremsur. En það er alveg augljóst og hefur verið sýnt fram á það og er margreynt að þegar það er gert þá snúast tilgangurinn og markmiðið algerlega upp í andhverfu sína. Það dregur úr framboði, leiguverð hækkar, það fækkar valkostum sem leigjendur hafa, húsnæðið verður verra og hvati til viðhalds minnkar og á endanum snýst það sem að er stefnt upp í andhverfu sína.

Það eru nokkur atriði í frumvarpinu, frú forseti, sem ég vil tæpa aðeins á, sem ég óttast að muni leiða til minna framboðs, muni draga úr hvötum leigusala til að vera á leigumarkaði, sérstaklega þá einstaklinga, vegna þeirra íþyngjandi kvaða sem í mörgum tilvikum er verið að setja á og boða í frumvarpinu.

Hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á að skylduskráning leigusamninga verði útvíkkuð. Ég vil taka fram að það orkar mjög tvímælis að skylda einstaklinga til að skrá einkaréttarlega samninga í ljósi þess að stjórnvöld hafi eitthvert óljóst markmið sem tengist hagstjórn og vilji ná því fram. Það eru ekki nægjanlega sterk rök eða málefnalegar ástæður fyrir því að setja slíkar kvaðir á einstaklinga, það er það ekki. Ég vara mjög við þessu ákvæði og þetta er augljóslega eitthvað sem hv. velferðarnefnd verður að taka til skoðunar.

Það eru önnur atriði þarna sem ég vil koma aðeins betur inn á. Það eru atriði sem takmarka samningsfrelsi. Þrátt fyrir að verið sé að takmarka rétt samningsaðila, einstaklinga, til að breyta leigusamningi innan 12 mánaða er sagt í greinargerðinni að þetta sé ekki til þess fallið að gera breytingu á því samningsfrelsi sem ríki milli aðila samkvæmt húsaleigulögum eða lögum um samningsgerð, umboð og ógildingu löggerninga. En það er samt verið að gera það. Það er verið að setja skorður við samningsfrelsi. Samningsfrelsi er grundvallaratriði í okkar viðskiptalöggjöf og hefur verið um aldir, var í Jónsbók og byggt á gömlum rómverskum rétti. Vissulega er ekki að finna samningsákvæði í stjórnarskránni, það er ekki beint kveðið á um samningsfrelsi í stjórnarskránni, en friðhelgi eignarréttarins í 72. gr. stjórnarskrárinnar væri ósköp ómerkileg og eiginlega einskis nýt ef ekki ríkti samningsfrelsi um það hvernig þú ráðstafar eign þinni. Ef ekki ríkir það frelsi að þú getir ráðstafað eign þinni, að það séu takmörk á því, þá er verið að setja skorður við friðhelgi eignarréttarins.

Það er merkilegt, frú forseti, að í greinargerð með frumvarpinu, í 4. kafla, þar sem fjallað er um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar, segir einfaldlega, með leyfi forseta:

„Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.“

Þetta finnst mér afar merkilegt. Það er í engu getið um að með því að setja skorður við samningsfrelsi milli aðila er verið að takmarka eignarrétt leigusala. Þetta finnst mér afar merkilegt og það er brýn þörf á því að hv. velferðarnefnd taki þetta til gaumgæfilegrar skoðunar.

Það eru líka ákvæði í þessu sem mér finnst orka mjög tvímælis og verð að koma inn á, m.a. ákvæði um að húsnæðisstuðningur skuli renna beint til leigusala sé hann ekki hagnaðardrifinn. Þess er getið í greinargerðinni að þetta eigi nú þegar við í lögum um húsnæðisbætur og lagt er til að þetta verði útvíkkað í húsnæðisstuðning sveitarfélaga. Mér þykir það afar merkilegt. Við erum að fara í grundvallarbreytingu á því hvernig velferðarkerfið okkar virkar, hvernig greiðslum eða bótum ríkisins til þeirra sem þess þurfa — hér er verið að fara í þá grundvallarbreytingu að í staðinn fyrir að einstaklingarnir sjálfir njóti þessara réttinda þá eigi peningarnir að renna eitthvað annað af því að það hefur einhvern göfugan tilgang eða einhver rök eru fyrir því að fólk muni annars eyða peningunum og leigusali fá ekki greiðsluna og fólk lendi í vanskilum. Er þetta það sem koma skal í öllu okkar velferðarkerfi, að bætur verði ekki greiddar til þeirra sem þurfa á þeim að halda, að þær eigi þá að fara eitthvert annað þangað sem stjórnvöld telja að bótunum skuli varið? Ef við tökum mjög ýkt dæmi væri þetta eitthvað á þá leið að barnabætur yrðu frekar greiddar inni í verslun, að þú fengir úttekt í verslun og mættir bara ráðstafa henni í barnavörur og barnamat, ella væri hætta á því að foreldrar myndu ekki ráðstafa barnabótum í þágu barnanna sinna. Þetta er mjög ýkt dæmi. En þetta er til að draga fram hvað verið er að leggja hér til. Mér finnst einkennilegt að ekki sé meiri umfjöllun um þetta í greinargerð og mér þykir ástæða til að vekja athygli á þessu atriði.

Samandregið þá eru ýmis atriði í frumvarpinu sem eru ágætlega til þess fallin að skýra réttarstöðu milli leigutaka og leigusala. Húsnæði er fólki afar mikilvægt og það er eðlilegt að um þetta gildi skýrar reglur á markaði. En með því að ganga fram með þessum hætti, setja þessar íþyngjandi kvaðir á leigusala, er augljóst að það mun draga úr framboði. Með því að skerða samningsfrelsi aðila á fyrstu 12 mánuðum samningstíma er verið að ýta undir það að leiguverð hækki á samningstímanum strax í upphafi til að takast á við einhverja óvissu eða ófyrirsjáanleika. Og öll markmið þessa frumvarps, sem ég hef komið inn á, þessi ákvæði, snúast upp í andhverfu sína. Eina raunhæfa leiðin til að treysta húsnæðisöryggi fólks er að það sé nægt framboð af húsnæði, að það séu markaðslausnir sem gildi, að það sé ráðandi markaður um hvaða stærðir á íbúðum eru í boði. Það eru þá fyrst og fremst sveitarfélögin í sínum skipulags- og lóðamálum sem eru helsta fyrirstaðan gegn því að markaðslausnir eigi við.