154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[17:07]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ég var einfaldlega að draga það fram að í frumvarpinu er verið að boða skerðingu á samningsfrelsi. Það er staðreynd. Það segir í greinargerðinni að ekki sé ætlunin að hrófla við því samningsfrelsi sem finnist í húsaleigulögum en samt er verið að gera það með því að setja takmarkanir. Slíkar takmarkanir, svoleiðis inngrip, hafa þær afleiðingar að samningsaðilar eru settir í þá stöðu við upphaf samningsins að þurfa að semja sig í gegnum óvissu á því tímabili sem þeir mega ekki semja um breytingar á samningi. Samningar eru milli tveggja aðila sem koma sér saman um breytingar. Það hallar ekkert á annan aðilann, það er einfaldlega ekki þannig. Að koma í veg fyrir það með lögum að tveir samningsaðilar geti gert breytingar á samningi báðum til hagsbóta — þannig virkar samningsfrelsið, það er þá báðum til hagsbóta að semja um ákveðin atriði — finnst mér vera óskynsamlegt inngrip. Þetta er inngrip sem vegur að samningsfrelsi. Það sem ég var að leiða fram er að það er einkennilegt að með takmörkun á samningsfrelsi sé verið að takmarka eignarrétt. Eignarrétturinn er varinn í stjórnarskránni og það er enga umfjöllun að finna um það í greinargerðinni. Mér þótti því ástæða til að bera þetta mál upp og vekja athygli á þessu. Aðalniðurstaðan er sú að ef það er markmiðið að auka framboð þá þurfum við að sjá fram á slíkar aðgerðir og ég mun styðja slíkar aðgerðir. En mörg ákvæði þessa frumvarps eru hreinlega til þess fallin að draga úr framboði og það þykir mér miður.