154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[17:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Þak yfir höfuðið er grunnþörf okkar allra. Það skiptir engu hversu illa árar eða hver staða okkar er, við þurfum öll heimili. Við sem erum svo lánsöm að hafa aldrei þurft að búa undir berum himni áttum okkur kannski ekki fyllilega á því í hverju það öryggi felst. Þak yfir höfuð þjónar nefnilega ekki þeim tilgangi einum að skýla okkur fyrir veðri og vindum. Veggir undir þakið vernda okkur, börnin okkar og eigur okkar sömuleiðis fyrir alls konar utanaðkomandi ógn. Fólk sem ekki hefur þak yfir höfuðið er berskjaldað fyrir óveðri jafnt sem ofbeldi, misnotkun og misneytingu. Því tel ég að breytingar sem auka á réttarvernd leigutaka séu almennt til bóta.

Hæstv. ráðherra talaði hér áðan um að gæta þyrfti að því að réttarvernd leigjenda gangi ekki of langt á eignarréttindi leigusala og get ég svo sem tekið undir orð hans að nokkru leyti en þó ekki nema að því marki að fullvíst sé að nauðsyn fólks fyrir að hafa þak yfir höfuðið vegi þyngra en réttur leigusala til fjárhagslegs ávinnings. Hin fjárhagsleg áhætta sem felst í leigusamningi má ekki hvíla eingöngu eða fyrst og fremst á leigutaka. Það er ekki sanngjarnt. Við megum nefnilega ekki gleyma því að viðskiptasamband leigusala og leigutaka er ekki bara hefðbundin viðskipti á milli tveggja aðila. Það eru viðskipti þar sem annar aðilinn treystir á hinn fyrir heimili fyrir sig og fjölskyldu sína. Þetta frumvarp og staðan á leigumarkaðnum og fasteignamarkaðnum á Íslandi í dag snýst fyrst og fremst um heimili fólks, ekki fjárfestingartækifæri.

Forseti. Þótt eignarhald á fasteign á eigin heimili hafi ýmsa kosti hefur það líka mikla ókosti í landi sem sögulega hefur ótryggt fjármálaumhverfi. Miklar sveiflur eru á fasteignamarkaði á Íslandi og mótvægi frá öflugum leigumarkaði er ekki nægilega veigamikið. Ódýrara og stöðugra umhverfi væri allri þjóðinni til mikilla hagsbóta. Heilbrigður húsnæðismarkaður býður upp á valfrelsi og öruggur leigumarkaður stuðlar að stöðugleika. Því þarf að miða að því að leigumarkaður verði sanngjarn, stöðugur og öruggur. Til þess þarf skýrt og gegnsætt regluverk með innbyggðum hvötum til langtímaleigu sem tryggja réttindi bæði leigjenda og leigusala.

Í greinargerð með frumvarpinu sem við erum að ræða hér í dag segir m.a., með leyfi forseta:

„Almennt hafa húsaleigulög verið talin veita leigjendum ríka réttarvernd en skortur á framboði á leiguhúsnæði og lök samningsstaða sem af honum leiðir verður til þess að leigjendur hafa í raun takmarkaða möguleika til að standa á rétti sínum samkvæmt lögunum.“

Þetta ósamræmi í samningsstöðu leigjenda og leigusala verður að bæta og það verður augljóslega fyrst og fremst gert með því að greiða úr því ástandi sem nú ríkir á fasteignamarkaði. Engu að síður þarf m.a. að styrkja kærunefnd húsamála svo að þegar ágreiningur kemur upp á milli samningsaðila sé aðgengi að réttarúrræðum greitt. Þetta frumvarp svarar að einhverju leyti ákalli leigjenda um meira gagnsæi, aukið húsnæðisöryggi og ríkari skyldur leigusala. Mikil þörf er á breytingum í þessa átt því ég held að flestum sé það ljóst að í valdajafnvægi á milli leigusala og leigjanda halli of mikið á leigjendur. Það eru einmitt slíkar aðstæður sem réttlæta inngrip ríkisvaldsins til að tryggja rétt fólks til húsnæðis og ekki bara hvaða húsnæðis sem er heldur þarf húsnæði að vera íbúðarhæft og öruggt og leigusamningar þurfa að vera fyrirsjáanlegir til lengri tíma.

Framboð af hentugu leiguhúsnæði hefur aldrei mælst jafn lítið og nú. Um allt höfuðborgarsvæðið og víðar býr fólk í ósamþykktu húsnæði, atvinnuhúsnæði jafnvel, og við aðstæður þar sem brunavörnum er svo ábótavant að fólk er beinlínis í lífshættu og hafa nokkrir þegar látið lífið. Enginn á að neyðast til að flytja með fjölskyldu sína á milli heimila mörgum sinnum á ári. Enginn á að þurfa að óttast um líf sitt á heimili sínu.

Fasteignamarkaðurinn á Íslandi hefur of lengi verið á forsendum fjármagnseigenda. Að kaupa sér þak yfir höfuðið tel ég að hvergi annars staðar þyki eðlilegt að sé áhættufjárfesting líkt og virðist þykja eðlilegt hér á landi. Þak yfir höfuðið er ekki lúxus. Það er hverri manneskju nauðsynlegt. Við eigum að miða okkar stefnu og löggjöf út frá því. Öllum einkaréttarlegum samningum fylgir áhætta. Það er fjárhagsleg áhætta fólgin í því bæði að leigja út fasteign og að leigja hana. Fyrir leigjandann er áhættan þó ekki einungis fjárhagsleg heldur lýtur hún að þessum grunnþörfum. Það er því ekki eðlilegt að haga málum þannig að áhættunni sé annaðhvort jafnt skipt eða fyrst og fremst velt yfir á leigjandann.

Ég fagna þessu máli og hlakka til umræðunnar sem mun eiga sér stað hér í þinginu um þessi grundvallaratriði.