154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

öryggisráðstafanir íslenskra stjórnvalda í tengslum við fjölskyldusameiningar Palestínubúa.

[10:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Fyrst vil ég halda því til haga hér að málefni hælisleitenda eru hjá dómsmálaráðherra og það er Útlendingastofnun sem tók ákvörðun um að veita dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Í kjölfarið á því barst utanríkisráðuneytinu erindi í desember um að veita aðstoð þeim sem hefðu fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, við að komast út af Gaza. Það liggur fyrir að án aðkomu utanríkisráðuneytisins hefði þetta fólk allt getað komið til Íslands ef landamærin væru ekki lokuð. Þau hafa ýmist verið lokuð eða opin í gegnum tíðina en í augnablikinu eru þau lokuð. Þetta erindi könnuðum við mjög vandlega og undirbjuggum okkar mögulegu aðgerðir sem hafa núna skilað þeim árangri að rúmlega 70 manns hafa komist fyrir tilstilli diplómatískra og pólitískra samskipta út af svæðinu.

Það er í raun og veru Útlendingastofnunar að gæta að þessum öryggismálum sem hv. þingmaður spyr hér um og ég tek undir að eru mikilvægur þáttur í heildarferli svona mála. Það sem við höfum gert í utanríkisráðuneytinu er að halda ríkislögreglustjóra upplýstum. Við göngum sömuleiðis út frá því að sú könnun sem fer fram af bæði ísraelskum og egypskum stjórnvöldum á landamærunum feli, eins og hér er spurt um, í sér einhvers konar úttekt á því hverjir eiga í hlut. En fyrir liggur að að mestu leyti er hér um að ræða börn og konur.

Varðandi framhaldið skal ég koma inn á það í mínu síðara svari, en ég hef litið á þetta sem aðgerð sem tengist erindi frá félagsmálaráðuneytinu síðan í desember, sem er á vissan hátt einstök. En þó er það ekki rétt hjá hv. þingmanni að önnur Norðurlönd eða aðrar þjóðir hafi ekki hjálpað til við að dvalarleyfishafar komist út. Það sem einkennir Ísland í þessu er fjöldinn. Hann er óvenjumikill.