154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

öryggisráðstafanir íslenskra stjórnvalda í tengslum við fjölskyldusameiningar Palestínubúa.

[10:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera verkefni ríkislögreglustjóra og eftir atvikum þeirrar stofnunar sem leggur mat á beiðnir um dvalarleyfi eða fjölskyldusameiningar að kanna þætti sem snúa að öryggismálum. Það er af þeirri ástæðu sem utanríkisráðuneytið hefur deilt upplýsingum með ríkislögreglustjóra í þessu ferli.

Varðandi framhaldið þá vil ég taka það fram að frumvarpið sem liggur hér fyrir þinginu er mikilvægt í tvennum tilgangi, annars vegar til þess að koma í veg fyrir að þessar séríslensku reglur sem hafa verið í gildi hér á grundvelli laganna haldi áfram að vera eins og sérstakur hvati til að láta reyna hér á umsókn um hæli þrátt fyrir að viðkomandi sé með hæli í öðru landi en eins er líka í frumvarpinu að finna lagagrein sem gengur út á það að fjölskyldusameining komi ekki til greina fyrr en að liðnum tveimur árum, auk þess sem dvalarleyfistíminn er styttur. Þetta eru allt atriði sem hafa beina tengingu við þann veruleika sem við erum að fást við í hælisleitendamálum í dag (Forseti hringir.) og þess vegna er algjört grundvallaratriði að þetta frumvarp verði samþykkt á þessu þingi.