154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

endurskoðun afstöðu gagnvart frystingu greiðslna til UNRWA.

[10:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel nú að annað hafi ekki verið ábyrgt og ekkert nema eðlilegt að krefjast skýringa og svara og stilla saman strengi með nágranna- og samstarfsþjóðum okkar þegar upp kemur að í gang fara tvær rannsóknir á stofnuninni. Ég lít þannig á að þegar þingið hefur veitt fjárheimildir til þess að styðja við stofnanir af þessu tagi þá sé út frá því gengið að öll framlög gangi til þess málstaðar sem um hefur verið rætt og allur vafi um að það sé þannig verður að vera tekinn alvarlega. Það þarf að hafa í huga hér að þessi svokallaða kjarnagreiðsla sem íslensk stjórnvöld höfðu gert samning við UNRWA um að inna af hendi átti að eiga sér stað fyrir 1. apríl og þess vegna erum við enn vel innan þess ramma sem um hafði verið rætt um framlag okkar Íslendinga. Við höfum, síðan ég kom á fund utanríkismálanefndar, séð ými slegt gerast. Í fyrsta lagi hafa Norðmenn og að ég hygg Írar aukið við stuðning sinn sem hefur fleytt stofnuninni betur áfram í gegnum febrúarmánuð. Öll vitum við að sjálfsögðu að framlag okkar Íslendinga er myndarlegt svona í samhengi stærðarinnar en er ekki að fara að ráða neinum úrslitum. En ég hef sömuleiðis átt í samskiptum við kollega mína á Norðurlöndunum og hef setið tvo slíka fundi og eins hafa embættismenn verið í samtali þar sem við höfum látið á það reyna hvort við gætum sammælst um þau atriði sem mestu máli skipta og snúa að stofnuninni um að færa þurfi til betri vegar. Ég er bara mjög vongóður um (Forseti hringir.) að við Íslendingar getum staðið við þessa kjarnagreiðslu í ljósi þeirrar vinnu sem hefur verið unnin í ráðuneytinu. Hitt er síðan annað mál að hversu miklu leyti við styðjumst við aðrar stofnanir á svæðinu það sem eftir lifir ársins.