154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

hækkun stýrivaxta og áhrif þeirra á verðbólgu.

[10:46]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Í gærkvöldi var viðtal á RÚV við Joseph Stiglitz nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Ég ætla að rekja þetta viðtal að hluta enda er boðskapur hans eins og beint út úr mínu eigin hjarta. Stiglitz segir seðlabanka heims hafa hækkað vexti að nauðsynjalausu og að þeir hafi með því hellt olíu á verðbólgubál síðustu ára. Hann var gríðarlega gagnrýninn á þá sem fara með völdin í seðlabönkum heimsins og sagði að þar horfðu menn of mikið á hagfræðikenningar í stað þess að horfa á stóru myndina eins og hagvöxt, atvinnustig, fjármálastöðugleika og misskiptingu. Hann sagði að vegna menntunar og uppruna þessara seðlabankastjóra hefðu þeir tilhneigingu til að einbeita sér meira að verðbólgu en nokkru öðru, að það væri næstum því í genum þeirra að þegar þeir sæju verðbólgu þá hækkuðu þeir vexti, hvort sem hækkun vaxta væri lausn á vandamálum eða ekki. Hann ræddi um þetta nýjasta verðbólguskeið sem matar- og orkuverð hafði mikil áhrif á og kastaði fram þeirri spurningu hvort hækkun vaxta gæti skapað meira af orku eða meira af mat sem gæti lækkað verðið. Svarið er að sjálfsögðu nei. Þvert á móti þyrfti að auka fjárfestingar til að auka framboð og þar með lækka verðið á meðan hækkun vaxta hefði þveröfug áhrif bæði á matar- og orkuverð. Hann sagði það sama eiga við um húsnæðisskort, sem er vandi sem við þekkjum vel á Íslandi, og sagði hækkun vaxta eingöngu gera illt verra, enda sjáum við að það hefur hægt verulega á byggingu nýs íbúðarhúsnæðis eftir að vextir voru hækkaðir. Hann sagði það einnig staðreynd að fyrirtækin næðu auknum vaxtakostnaði til baka með því að velta honum beint út í vöruverð til neytenda sem aftur hækkaði verðbólguna. Að lokum sagði hann að þótt vissulega væri verðbólgan á niðurleið þá væri það ekki vegna hækkunar stýrivaxta. Því ættu seðlabankar engar þakkir skildar fyrir sitt vaxtablæti.

Til að draga saman erindi nóbelsverðlaunahafans þá hafa seðlabankar heims of þrönga sýn á verðbólguna og hafa aukið vandann með vaxtahækkunum sínum.

Ég spyr því hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin axli ábyrgð sína og sjái til þess að snúið verði af þessari glötunarbraut grimmilegra vaxtahækkana áður en ástandið verður enn verra? Þarf ekki einhverja varnagla inn í lög um sjálfstæði Seðlabankans svo að fólk sem enginn hefur kjörið og er bersýnilega á rangri leið geti ekki sett tugþúsundir í jafn mikil vandræði og raun ber vitni?