154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

staða launafólks á Íslandi.

[11:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég er að benda á það að þær upplýsingar sem liggja inni á tekjusagan.is eru gögn sem sótt eru í rauntíma upp úr gagnagrunnum sem eru staðreyndir og það er ekkert annað á heimasíðunni heldur en staðreyndir. Sú könnun sem gerð er er með öðrum hætti. Ef hv. þingmaður vill að ég haldi því fram sem hún var að gefa í skyn, að ég teldi að tekjulægsta fólk á Íslandi hefði það alveg svakalega gott, þá er það ekki það sem ég sagði. Hv. þingmaður gefur það í skyn og segir með beinum hætti að ég sé ekki í tengslum við raunveruleikann eða venjulegt vinnandi fólk. Ég get ekki annað sagt en að það er að sjálfsögðu alrangt. Kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri. Við erum með skuldir heimilanna sem eru í sögulegu lágmarki og gögnin sem við höfum sýna að það eru fáir í raunverulegum greiðsluvanda. Lækkun á leikskólagjöldum hefur verið þannig að bótakerfið og leikskólagjöldin gera það að verkum að stuðningur til foreldra er meiri en á hinum Norðurlöndunum. Gögnin sýna að fjöldi fólks sem á erfitt með að ná endum saman hefur sífellt minnkað einmitt á tíma þessarar ríkisstjórnar. Þannig að þetta eru gögnin og ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður trúi því að þau gögn séu rétt.