154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

aðkoma ríkisins að gerð kjarasamninga.

[11:01]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í gær leit út fyrir að kjarasamningar næðust milli breiðfylkingarinnar svokölluðu og Samtaka atvinnulífsins. Það mátti hins vegar heyra á formanni Starfsgreinasambandsins í morgunfréttum að nú hverfðist allt um ókeypis skólamáltíðir, að ekki yrði skrifað undir kjarasamning nema öll sveitarfélög samþykki að taka þátt í niðurgreiðslu þeirra, sem þau hafa mörg verið treg til að samþykkja. Ég fagna því að verið sé að landa kjarasamningi en ég skil líka á sama tíma tregðu sveitarfélaganna þar sem ég hef bæði starfað innan verkalýðshreyfingarinnar og á sveitarstjórnarstiginu. Í mínum huga ætti ákvörðun um veitta þjónustu að vera á borði kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum. Það hefur lengi verið umdeilt hvort skólamáltíðir eigi að vera fríar og það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir kjörna fulltrúa að nú sé verið að taka fram fyrir hendurnar á þeim. Í mínum huga hefði verið eðlilegra að krefjast enn frekari lækkunar gjaldskrár. Þannig væri dregið úr verðbólguþrýstingi og möguleikum á lækkun vaxta sem hefur samkvæmt minni upplifun verið helsta viðfangsefni þessara kjarasamninga. Hingað til hefur verið rætt um að ríkið kæmi inn með fjármuni í tilfærslukerfin, eins og vaxtabætur og húsnæðisstuðning, en krafan um fríar skólamáltíðir virðist hafa komið fram á seinni stigum. Þessi aðgerð mun auðvitað gagnast þeim sem eiga börn í grunnskóla en það eiga bara ekki allir börn í grunnskóla og munu þar af leiðandi ekki fá það sama út úr þessum kjarasamningi. Ég geri ráð fyrir að hæstv. fjármálaráðherra aðhyllist þá skoðun að það sé ekki til neitt sem heitir frír hádegismatur. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra um sýn hennar á þessar kröfur og hvort hún sé sammála eða skilji tregðu sveitarstjórnarfólksins úr hennar eigin flokki.