154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Áhrif fákeppni, stórra fyrirtækja og samtaka þeirra á lýðræðið, stjórnmál, lagasetningu og á stjórnmálaflokka og nærsamfélög eru mikil hér á landi. Íslendingar voru 100 árum á eftir Bandaríkjamönnum að setja samkeppnislög. Í Bandaríkjunum brutu samkeppnislögin einokun og fákeppni á bak aftur og í kjölfarið bötnuðu lífskjör og efnahagur Bandaríkjamanna til muna. Það var ekki aðeins mikilvægi þess að neytendur væru varðir fyrir fákeppni sem hvatti Bandaríkjamenn áfram svo löngu á undan öðrum heldur einnig það að fákeppni fylgir samþjöppun valds og áhrifa sem talið er ógna lýðræðinu. Það var í þessum anda sem Bandaríkjamenn beittu sér fyrir því eftir síðari heimsstyrjöldina að stórfyrirtækjum yrði skipt upp í Japan og Þýskalandi. Það lagði grunninn að endurreisn ríkjanna eftir síðari heimsstyrjöldina og mikilli efnahagslegri velgengni, bæði í Japan og Þýskalandi. Friður, lýðræði og samkeppni héldust í hendur.

Við Íslendingar búum við fákeppni á flestum lykilmörkuðum. Við þekkjum áhrif og völd stórra fyrirtækja sem nánast stýra heilu byggðarlögunum. Sveitarstjórnir telja sig jafnvel verða að beygja sig fyrir stóru allsráðandi fyrirtækjunum sem oft eru jafnframt velgjörðarmenn byggðarlaganna sem styrkja íþróttafélög og byggingu íþróttamannvirkja svo algeng dæmi séu nefnd. Við þekkjum áhrifin sem stórfyrirtæki vilja sækja sér innan stjórnmálaflokka og hvernig þau beita sér til að gæta hagsmuna sinna við lagasetningar. Stærstu fyrirtækin hafa sterkustu röddina, halda jafnvel úti fjölmiðlum til að gæta hagsmuna sinna og vinna að afli gegn Samkeppniseftirlitinu. Það er með ólíkindum að hvorki Fiskistofa né Samkeppniseftirlitið hafi yfirsýn yfir stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi, svo dæmi séu tekin. Stjórnvöld sem gæta eiga hagsmuna almennings sjá ekki til þess að Neytendasamtökin séu í stöðu til að hafa jafn sterka rödd með fjárframlögum líkt og nágrannalöndin okkar gera.

En það er fleira sem gæta þarf að. Nú um stundir er horft til yfirburðastöðu fyrirtækja á borð við Google, Facebook og Apple og talið er að þau fyrirtæki geti með stöðu sinni ógnað lýðræðinu ásamt því að vera efnahagslífinu skaðleg.

Íslenska samkeppnislöggjöfin frá árinu 1993 var hluti af undirbúningi aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Í gegnum EES höfum við fengið neytendavernd sem við nutum ekki án aðildarinnar. Vegna EES-samningsins geta íslensk stjórnvöld ekki að öllu leyti látið undan þrýstingi sérhagsmunaafla og veikt Samkeppniseftirlitið enn frekar.

Í íslensku viðskiptalífi hefur átt sér stað gríðarleg samþjöppun valds og áhrifa og Samkeppniseftirlitið fær ekki að beita þeim viðurlögum sem nauðsynleg eru til að skapa þau varnaðaráhrif að öll fyrirtæki telji það hag sinn að starfa innan ramma laganna og reglulega er hart sótt að Samkeppniseftirlitinu. Til að gæta að hag sínum ætti almenningur að standa með öflugu samkeppniseftirliti og neytendavernd og, herra forseti, það er sannarlega umhugsunarefni þegar stórfyrirtæki og samtök þeirra beita afli sínu gegn samkeppniseftirliti og samkeppnisreglum. Það vekur upp spurningar um hvers vegna þau sækjast ekki eftir því að hafa allt uppi á borðum. Hvers vegna berjast þau gegn því t.d. að Samkeppniseftirlitið hafi í lögum viðurlög sem sjá til þess að fyrirtækin haldi sér innan samkeppnisreglna? Við höfum reynslu af þessu, t.d. á síðasta kjörtímabili þegar ríkisstjórnin kom með frumvarp sem gerði ekkert annað en að draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu. Stjórnarandstaðan kom í veg fyrir verstu ákvæðin en samt sem áður var það greinileg stefna ríkisstjórnarinnar, sem á að vera að verja hag almennings, að hún vildi draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu. Það finnst mér, forseti, hneykslanlegt.