154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Samkeppnislög og samkeppnisréttur og framkvæmd samkeppnislaga eru gríðarlega mikilvæg í öllum markaðshagkerfum og segja má að þar séu lýðræðisandinn og mannréttindi hins kapítalíska hagkerfis samankomin. Málshefjandi minntist á Bandaríkin og samkeppnislögin þar, sem komu 1894 með Sherman-lögunum, en þeim var hins vegar ekki beitt fyrr en eftir 1900. Framkvæmd samkeppnislöggjafar í Bandaríkjunum hefur alltaf verið háð pólitískum vindum þar í landi. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé ekki svo hér á landi og mikilvægt að við stöndum þétt á bak við Samkeppniseftirlitið og að það sé nægjanlega fjármagnað.

Við stöndum nú á ákveðnum tímamótum, tel ég, hvað þetta varðar þegar við horfum til samkeppnislaga. Ef við horfum t.d. á hina gríðarlega háu sekt upp á 4,2 milljarða sem Eimskip og Samskip fengu vegna brota á ákvæðum samkeppnislaga — í frummati á tjóni sem gert hefur verið á samkeppnislagabrotum Samskipa og Eimskipa þá hefur kostnaðurinn verið metinn tæplega 62 milljarðar kr. á árunum 2008–2013. Lántakendur verðtryggðra lána greiddu um 17,4 milljarða aukalega vegna hækkunar vísitölu sem er til komin vegna þessa samráðs. Hér er um gríðarlega stórt mál að ræða og við þurfum eiginlega að skoða í heild hvernig við högum skipaflutningum og vöruflutningum hingað til landsins. Það má benda á að t.d. Eimskip hefur líka tögl og hagldir í að stjórna helstu innflutningshöfn landsins. Ég tel gríðarlega mikilvægt að þetta sé aðskilið. Við þurfum líka að horfa á það, ef við förum aftur til Bandaríkjanna, að þá hefur framþróun átt sér stað í gegnum samkeppnislöggjöfina. Ég mun koma betur að því í seinni ræðu minni.