154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:27]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa góðu umræðu hér í dag. Viðskiptafrelsi og virk samkeppni eru grunnforsendur fyrir kröftugu efnahagsumhverfi. Virk og heilbrigð samkeppni skilar mestum ávinningi til neytenda og mikilvægt er að stjórnvöld stuðli að heilbrigðri samkeppni en því miður er samkeppnisrekstur hjá hinu opinbera enn umfangsmikill. Atvinnugreinar á Íslandi þurfa að búa við sambærilegt regluverk, sömu samkeppnisreglur og sömu skilyrði og atvinnugreinar í þeim löndum sem við eigum í viðskiptum við. Regluverk má ekki vera þannig úr garði gert að það íþyngi frekar íslensku atvinnulífi umfram það sem gerist á alþjóðlegum mörkuðum. Allar atvinnugreinar þurfa skýra umgjörð og stöðugleika til langs tíma en kannanir hafa leitt í ljós að stjórnendur fyrirtækja finna fyrir samkeppnishindrunum á sínum markaði. Stjórnvöld verða að meta samkeppnisleg áhrif laga og reglna og ryðja úr vegi hindrunum. Fyrir liggur t.d. samkeppnismat OECD á ferðaþjónustu og byggingariðnaði og það er mjög brýnt að við hættum að draga lappirnar og förum eftir þeim ábendingum sem þar eru. Þá er ekki einungis mikilvægt að samkeppni sé virk á innanlandsmarkaði heldur er afar brýnt að styðja við alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækja, sérstaklega í þeim atvinnugreinum sem eru í alþjóðlegri samkeppni, og nefni ég t.d. íslenska sjávarútveginn sem er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg.

Samkeppniseftirlitið gegnir mjög veigamiklu hlutverki og fer með mjög víðtækar eftirlits- og valdheimildir sem mikilvægt er að fara vel með. Í því samhengi er mikilvægt að stofnunin fari ekki á svig við lög sem grefur undan trausti til stofnunarinnar líkt og gerðist þegar áfrýjunarnefnd samkeppnismála úrskurðaði að verktakasamningur þess við matvælaráðuneytið hefði verið lögbrot. Það traust sem glatast hefur á stofnuninni sem hefur þetta mikilvæga hlutverk í íslensku atvinnulífi, m.a. vegna þessa lögbrots, ber að líta alvarlegum augum.