154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:31]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er sameiginlegt hagsmunamál framleiðenda matvæla, neytenda, stjórnvalda og ekki síður verslunar og innflutningsaðila að bæta merkingar á matvælum og tryggja þannig betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna þeirra, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif. Öll þekkjum við að hafa verið blekkt, svikin eða afvegaleidd með röngum eða villandi merkingum matvæla. Þar hefur ýmsum brellum verið beitt; íslenski fáninn, merkingar sem benda til íslensks uppruna, íslensk vörumerki sem við þekkjum og höfum treyst í gegnum árin, jafnvel afurðastöðvar í eigu bænda sem eru orðnar stórtækar í innflutningi matvæla og oftar en ekki í samkeppni við umbjóðendur sína og eigendur. Þar bregður gjarnan við þeim ljóta sið að gefa í skyn að matvæli séu af íslenskum uppruna af því að þeim sé pakkað á Íslandi. Slælegar eða rangar merkingar matvæla eru stundum ekki af beittum ásetningi heldur hreinu virðingarleysi fyrir neytendum og matvælaöryggi.

Ef maður hefur ekki gleraugun með sér í búðina, nýpússuð, og rannsakar umbúðir vörunnar, allar hliðar, hvort það leynast vísbendingar um erlendan uppruna vörunnar, jafnvel smágerður texti um upprunaland, á maður, í góðri trú, á hættu að vera plataður. Ástandið er síst betra á mörgum veitingastöðum þar sem starfsfólk getur oftar en ekki ekki svarað til um uppruna matvæla í réttum sem þeir bera fram.

Bændasamtökin og Neytendasamtökin hafa verið leiðandi í umræðu um bættar merkingar matvæla og kallað eftir bæði uppfærðri og hertri löggjöf til að tryggja matvælaöryggi, fullnægjandi innihaldslýsingar og upprunamerkingar, reglum sem fylgt er eftir. Forsætisráðherra og nú starfandi matvælaráðherra hefur sömuleiðis hvatt mjög til betri upprunamerkinga matvæla og sagði fyrir nokkru á fundi Bændasamtakanna, með leyfi forseta:

„Mér finnst merkingar oft faldar eða villandi (Forseti hringir.) og tel fulla ástæðu til að grípa til frekari aðgerða í því.“ — Hér er verk að vinna.