154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég ætla að þakka málshefjanda, hv. þm. Oddnýju. G. Harðardóttur, fyrir umræðuna. Þetta eru áleitnar spurningar sem hún varpar fram, ekki síst í okkar litla samfélagi. Það er því af mörgu að taka en mig langar að beina sjónum að síðasta áherslupunkti málshefjanda, um hvort íslenskir neytendur búi við sömu vernd og neytendur á EES-svæðinu. Eins og svo margt sem lýtur að hagsmunum almennings kemur samkeppnislöggjöfin okkur að miklu leyti frá Evrópusambandinu en það er ýmislegt sem við eigum eftir að innleiða í íslensk lög. Þar má nefna evrópsku skaðabótatilskipunina frá 2014 sem eykur verulega möguleika neytenda og fyrirtækja til að sækja bætur vegna samkeppnisbrota. Málið hefur ekki enn farið í gegnum EES-nefndina en það eitt og sér kemur ekki í veg fyrir að íslensk stjórnvöld tryggi íbúum landsins þessa miklu réttarbót.

Ég var málshefjandi í sérstakri umræðu um samkeppnismál hér fyrr í vetur þar sem ég spurði ráðherra málaflokksins m.a. um þetta atriði. Svarið var skýrt: Málið væri mikið umbótamál sem myndi styrkja alla umgjörð samkeppnismála en það yrði ekki innleitt hér fyrr en tilskipunin hefði verið tekin upp í EES-samninginn. Auðvitað eru tilskipanir EES, þ.e. Evrópusambandsins, ekki innleiddar hér á landi fyrr en það gerist, en það kemur ekki í veg fyrir að við breytum lögum okkar til samræmis til að tryggja þessa mikilvægu neytendavernd.

Nú er staðan sú að í íslenskum lögum eru ekki sérstök ákvæði um skaðabótaábyrgð þeirra sem brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga og dæmin sýna að í núverandi lagaumhverfi eru skaðabótamál vegna samkeppnislagabrota langt frá því að vera auðsótt. Það er þess vegna brýnt að breyta þessu og bíða ekki lengur eftir þessari innleiðingu frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta er gríðarlega mikilvægt neytendamál og staðan sýnir og málin sem hafa komið upp undanfarið sýna að neytendur þurfa einfaldlega á því að halda að lögin taki utan um þeirra rétt með þeim hætti.