154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:38]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Þetta skiptir auðvitað samfélagið alveg gríðarlega miklu máli, alveg sama hvernig á það er litið. Ég ætla að beina hér spjótum mínum aðeins að tryggingamarkaði sem ég hef fjallað um áður. Það er ekki langt síðan hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir, sem jafnframt er ráðherra neytendamála, afhenti Neytendasamtökunum mjög veglegan styrk til þess að ráðast í úttekt á tryggingamarkaði hér á landi. Og af hverju? Sá sem hér stendur lagði fyrir ekki svo löngu fyrirspurn fyrir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um þróun iðgjalda tryggingafélaga á síðustu árum. Ég hef margoft fjallað um þetta tiltekna mál og önnur tengd neytendamál, en í svari ráðherra við fyrirspurn kemur mjög margt áhugavert í ljós líkt og að tryggingafélögin hafi hækkað iðgjöld sínu umfram almennar verðlagshækkanir. Iðgjöld bílatrygginga t.d. hækkuðu um 1.840 millj. kr. umfram verðlagshækkanir á fimm árum, árin 2016–2021, um 1.093 milljónir af lögboðnum tryggingum og 747 milljónir af frjálsum tryggingum. Það má bara segja út frá þessum tölum að það sé nauðsynlegt að ráðast í ítarlega skoðun á þessum málum. Markmið úttektarinnar er auðvitað það, og við þingmenn heyrum það hér, að við þurfum þennan raunverulegan samanburð á milli landa, hvernig þessum málum er háttað og hvernig þau eru í löndunum í kringum okkur. Ég er mjög ánægður með það að ráðherra hafi falið Neytendasamtökunum að annast þessa úttekt. Hún er nú hafin, sú vinna er í fullum gangi og ég hlakka til að fá að sjá þennan samaburð. Mér skilst að áfangaskýrsla eigi að liggja fyrir núna í apríl eða maí og þá verður, svo ég ítreki það, fróðlegt fyrir okkur að sjá hvar við raunverulega stöndum í þessum málum.