154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:50]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Málshefjandi spyr hér hvort íslenskir neytendur búi við sömu vernd og aðrir neytendur á EES-svæðinu. Í því sambandi er vert að nefna að EES-samningurinn hefur einmitt verið nefndur til sögunnar sem helsta hindrun þess að við getum komið við nauðsynlegum lagabreytingum til verndar neytendum til að styrkja matvælaöryggi, að með bættum upprunamerkingum sé verið að mismuna framleiðendum matvæla í öðrum löndum þar sem matvælaeftirlitið er oft á tíðum bágbornara og gæði matvæla lakari. Þetta er náttúrlega bara þvæla sem aldrei fengi staðist ef á það reyndi fyrir dómstólum, að okkur beri að halda upplýsingum um innihald og uppruna matvæla leyndum fyrir neytendum til að þóknast þeim sem telja sér hag í slíku í stað þess að standa vörð um heilsu fólks og það geti tekið upplýsta ákvörðun um val á matvælum út frá hreinleika þeirra og uppruna.

Hér eigum við ekki að hrökkva heldur, sem fullvalda þjóð, að setja okkur betri löggjöf í eigin landi. Annars staðar höfum við ekki staðið okkur gagnvart EES-samningnum í neytendavernd eins og að innleiða tilskipun nr. 104/2014 sem hefur ekki enn formlega verið tekin upp í íslensk lög en hún treystir betur skaðabótarétt neytenda. Þjóðhagslegt tjón vegna ólögmæts samráðs Eimskips og Samskipa á árunum 2008–2013 er talið nema tæplega 62 milljörðum kr. samkvæmt úttekt Analytica. Af hinu 62 milljarða tjóni er kostnaðarauki neytenda talinn vera 26 milljarðar kr., sem er rakið beint til hækkana gjaldskrár skipafélaganna umfram almennt verðlag.

Já, við þurfum á öflugu, sjálfstæðu samkeppniseftirliti að halda. Við þurfum að gera meira en að fordæma meint samkeppnislagabrot skipafélaganna. Það þarf að sýna í verki að stjórnvöld taki hagsmuni neytenda og smærri fyrirtækja fram yfir hagsmuni stórfyrirtækjanna sem ítrekað gerast brotleg við lög. Það verður ekki síst gert með því að eyða óvissu um réttarstöðu tjónþola í samkeppnislagabrotum og innleiða evrópsku skaðabótatilskipunina nr. 104/2014. (Forseti hringir.) En þurfum við að bíða eftir innleiðingu þessarar tilskipunar? Nei, við getum einfaldlega gengið í að setja slík lög sjálf.