154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:55]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Stjórnvöld styðja við framþróun samkeppnis- og neytendamála á Íslandi og í mínum huga er ekki nokkur spurning um mikilvægi þessa. Við erum að fara í aðgerðir til þess að styðja enn frekar við þá umgjörð. Við erum núna í mjög nánu samstarfi við Samkeppniseftirlitið þar sem við erum að fara yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar um það hvernig megi styðja við Samkeppniseftirlitið og vænti ég þess að það muni leiða til þess að styðja við Samkeppniseftirlitið. Í fyrsta sinn er verið að móta stefnu á Alþingi Íslendinga um að auka stuðning við neytendur í landinu. Ég vil nefna það aftur að í fyrsta sinn er líka verið að gera skýrslu á vegum stjórnvalda þar sem farið er yfir aðgengi íslenskra neytenda að fjármálastofnunum og bera það saman við það sem er að gerast á Norðurlöndunum og tel ég að það muni sannarlega skila nokkrum ábata. Fyrst ber að nefna að við höfum verið að fara vel yfir málefni greiðslumiðlunar í landinu og hefur forsætisráðherra lagt fram frumvarp þess efnis þar sem er verið að leggja til íslenska greiðslumiðlun sem sparar sannarlega fjármuni og eykur þjóðaröryggi. Eins erum við að endurskoða stjórnsýslu samkeppnis- og neytendamála í landinu með það eitt að markmiði að styðja við þennan málaflokk vegna þess að hann á það skilið.

Virðulegur forseti. Mér þykir það afar brýnt að þingið og stjórnvöld séu samstiga í því að efla samkeppnis- og neytendamál í landinu.