154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dýrasjúkdómar o.fl.

483. mál
[12:16]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð og heiðarleg svör um hvernig þetta er. Við sem ekki erum bændur könnumst reyndar við hvað gerist með gæludýrin. Það eru t.d. ófáir hamstrarnir í frystum sem bíða eftir vori.

En mig langaði aðeins að ræða eitt í sambandi við það að hv. þingmaður ræddi um brennslu. Það hefur aðeins verið í umræðunni að það þurfi að koma hér upp stórri og góðri brennslu fyrir sorp. Menn hafa jafnframt verið að tala t.d. um það að á Reykjanesi gæti slík brennsla líka verið notuð til þess að hita upp vatn sem gæti þá leyst af ef náttúruhamfarir fara illa með Svartsengi. Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Ef stór slík brennsla yrði til sem væri almennt notuð í sorp, væri þá hægt að nota hana einnig í þetta? Hvernig sæi þá hv. þingmaður fyrir sér að þessi dýr og annar úrgangur sem ekki er notaður til manneldis gæti þá verið sendur á milli landshluta til að tryggja það að þessu sé fargað með góðum hætti eða sé eytt með góðum hætti í slíkri sorpbrennslu? Sér hv. þingmaður fyrir sér að slíkt myndi leysa eitthvað af þessum málum?