154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dýrasjúkdómar o.fl.

483. mál
[12:18]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er nú þannig, og kemur ágætlega fram í nefndaráliti þess efnis, að til þess að þessi farvegur sé fyrir hendi þarf að eiga sér stað ákveðin söfnun. Söfnunin er þá hugsuð þannig að það eru bílar eða bíll sem fer um og safnar saman úrgangi með skipulegum hætti og svo fer þetta til förgunar.

Ég vil koma inn á það, frú forseti, að fyrirhugað er líforkuver sem er í uppbyggingu við Eyjafjörð. Nú þekki ég ekki alveg hverju verður fargað þar en ég reikna nú frekar með því að það sé fyrst og fremst verið að tala um lífrænan úrgang sem fellur til á stóru svæði og verður safnað saman þarna og úr því verður þá unnin vara, lífdísill eða eitthvað því um líkt, sem kemur síðan til góða í framhaldinu.

En það er nú einu sinni þannig, fyrst hv. þingmaður kom hér inn á sorpbrennslustöð, að við erum sem þjóð, verð ég að segja, ekki með ákveðinn farveg hvað þetta varðar. Við þekkjum mjög víða hvernig þetta er og það er algjörlega ótækt að við séum að safna saman sorpi og flytja það hér yfir hafið og láta farga því á einhvern annan hátt. Við hljótum að geta gert það hér á landi líka, þó að ég geri mér grein fyrir því að Íslendingar eru fáir og ekki eins mikið sem fellur til. En það er bara eitt af þessu sem við þurfum að takast á við í framtíðinni, þ.e. að koma því í ákveðinn farveg.