154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[14:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski fyrst um bókun 35. Maður spyr sig hvort hv. þingmaður sé að gefa í skyn að bókunin sem slík standist ekki íslensk lög. Með þessari bókun boðuðu íslensk stjórnvöld að þau myndu sjá til þess að réttindi sem væru byggð á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið myndu ganga framar í landsrétti ef árekstur yrði við almenn lög. Spurningin er síðan alltaf sú hvernig menn ná þessu markmiði fram og það er alveg skýrt af nýlegum hæstaréttardómi að forgangsregla af þessu tagi stenst stjórnarskrá. Það eru engir stjórnskipulegir annmarkar á að innleiða slíka bókun með forgangsreglu. Þetta má alveg liggja ljóst fyrir eftir hæstaréttardóminn og þar fyrir utan liggja fyrir lögfræðiálit, t.d. um frumvarpið frá síðasta vori, um stöðu þess gagnvart stjórnarskránni. Löggjafinn getur ekki breytt lögum, ekki bundið hendur framtíðarþings, og það er sérstaklega tekið fram í frumvarpinu sem lá hér fyrir þinginu fyrir ári að auðvitað gæti þingið ákveðið að taka inn í íslensk lög ákvæði sem gengju gegn skuldbindingum gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu. Það þyrfti þá bara að taka það fram að það væri ásetningur til að gera það. En svarið við spurningu hv. þingmanns er að öðru leyti bara það að það eru dæmi í íslenskum lögum um svona forgangsákvæði, forgangsreglur og þær hafa ekki þótt vera andstæðar stjórnarskránni.