154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[14:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hv. þingmaður vísar hér til var ekki síst um það hvort íslensk stjórnvöld væru reiðubúin til að ganga niður sömu braut og gert var í Evrópusambandsríkjunum og því var hafnað. Þess vegna erum við með tveggja stoða kerfið. Þess vegna á Alþingi alltaf síðasta orðið. Þess vegna höldum við úti þessum stofnunum EFTA-megin sem hafa um þessa hluti að segja. Þessu má ekki rugla saman við það að setja í almenn lög skýringarreglu sem dómstólar geta stuðst við. Það eru mörg dæmi um slíkt og hefur ekki þurft EES-samstarfið til að skapa tilefni fyrir slíkt. Þannig að ég er ekki sammála því og hvet hv. þingmann bara til þess að skoða þennan nýjasta dóm í því sambandi.

En varðandi sáttmálabreytingar þá er það (Forseti hringir.) auðvitað þannig að þær eru fyrir Evrópusambandsríkin og binda ekki EES-ríkin án sérstaks samkomulags þannig að við erum óháð þeirri niðurstöðu.