154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[14:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Áður en ég fer í skýrsluna held ég að það sé rétt að ég komi inn á það sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson var að ræða varðandi það að tengja ólíka hluti inn í þessa umræðu. Ég held að heimurinn okkar sé að breytast með þeim hætti að það sé óhjákvæmilegt. Mér fannst hæstv. utanríkisráðherra fara ágætlega yfir það hvernig við þyrftum að taka yfirvegaða umræðu um alls konar mál sem kæmu upp án þess að detta í skotgrafir. Ég vil fagna því að hæstv. ráðherra sagðist opna á það að skoða með óyggjandi hætti hvaða efnahagslegi hagnaður fælist í því fyrir einstaklinga, ef ég skildi hann rétt, að vera þátttakendur í þessu Evrópska efnahagssvæði líkt og Norðmenn hafa gert. Ég er algerlega sammála honum og það eru nú rúm fimm ár síðan við fengum í hendur heildstæða úttekt á afleiðingum og virkni samningsins á Íslandi þar sem lagt var mat á ávinning Íslands af þátttöku í EES-samstarfinu. Sú skýrsla, sem leidd var af Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, var nokkuð afdráttarlaus um að aðild að innri markaðnum hefði verið mjög mikið gæfuspor. Ég held að flestöll áttum við okkur á því hversu miklum stakkaskiptum íslenskt samfélag hefur tekið í kjölfarið þó að auðvitað komi fleiri þættir til. Það er líka nefnt í skýrslunni að án samningsins væri meiri hætta á einangrun, stöðnun og afturför í íslensku þjóðlífi. Því má segja að EES-samningurinn hafi að einhverju leyti komið okkur inn í og viðhaldið okkur í nútímanum.

Evrópusamvinnan heilt yfir hefur líka skilað okkur velmegun, nýsköpun, samkeppnishæfi og almennri velsæld og gefið okkur mjög margt til framfara þegar kemur að félagsmálum, neytendamálum og umhverfismálum, bæði er varðar lögaðila og einstaklinga. Kjarninn í þessum samningi, sem við höfum nú reynslu af í hartnær 30 ár, er að tryggja fólki jöfn tækifæri og stöðu hvarvetna á svæðinu. Auðvitað er líka hægt að nefna, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hluti sem eru kannski síður mælanlegir í peningum, þó stundum, eins og menningarstarfsemi og slíkt. Í því ljósi er ég nokkuð hissa á því að mér finnst á þessum vetri bera á fleiri efasemdarröddum varðandi þetta samstarf og sífellt er verið að vísa til þess hversu margar innleiðingar eru á hverju ári og hver kostnaðurinn gæti verið. Þessi skýrsla sýnir með óyggjandi hætti að ávinningurinn af þessu samstarfi er ótvíræður. En það er auðvitað alltaf þannig í öllu sambandi, bæði milli einstaklinga og ríkja, að það eru plúsar og mínusar. Á endanum snýst þetta um að átta sig á því hvort heildarhagsmunirnir vegi þyngra en einstakir þættir. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hafi beinlínis sagt að það væri grundvallaratriði þegar kemur að hagsæld þjóðarinnar að taka þátt í þessum samningi og ég er svo sammála honum um það.

Þetta er fín skýrsla og hún víkur að flestu því er varðar okkar samstarf á fjölmörgum sviðum. Einnig er talað um nauðsynlega hagsmunagæslu okkar. Hún er auðvitað mikilvæg en hefur í einhverjum tilfellum skapað tafir á innleiðingu, stundum ónauðsynlegar, og við skulum muna að í þeim getur falist augljóst tap fyrir fyrirtæki og einstaklinga á Íslandi. Ég er sammála hæstv. ráðherra um nauðsyn mikillar hagsmunagæslu og eftirfylgni við framkvæmd samningsins og það er gott að sjá að atvinnulífið ætlar sér stærri hlut þar og einnig að ráðuneytin öll séu nú miklu virkari en áður. Mér sýnist hins vegar að innleiðingarhalli síðustu ára sé ekkert að minnka og það er eitthvað sem við þurfum að huga að. Við erum þarna talsverðir eftirbátar bæði Noregs og Liechtenstein.

Í framhaldi af þeirri ræðu sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flutti þá eigum við náttúrulega í síbreytilegum heimi í öllum tilfellum alltaf að vera að endurmeta stöðu okkar. Ég get alveg tekið undir með hæstv. ráðherra um að líklega eiga ólík viðhorf okkar að birtast í yfirvegaðri umræðu hér innan dyra og úti í samfélaginu frekar en í einhverjum týpískum skotgrafahernaði. Það er ekki rangt hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að umræðan um þátttöku nágrannaþjóða okkar í fjölþjóðlegu samstarfi hefur verið að breytast dálítið hratt á síðustu tveimur árum. Við sjáum auðvitað Finna ganga í NATO sem er grundvallarbreyting sem engan hefði órað fyrir fyrir nokkrum árum, Svíarnir koma inn í dag og er ástæða til að óska þeim og okkur öllum til hamingju með það. Þeir eru þá í fyrsta skipti í 200 ár að taka þátt í samstarfi á þessu sviði. Þetta hefur auðvitað vakið upp talsverðar umræður í Noregi líka. Mig minnir að íhaldsflokkurinn hafi fyrir einu ári á landsþingi sagt að það yrði að skoða með alvarlegum hætti hvaða þýðingu það hefði að ganga alla leið, sem MDG-flokkurinn, grænir, tók undir að einhverju leyti. Verkamannaflokkurinn sagði að þetta væri ekki á dagskrá næstu árin en tónninn var mildari og ein af ástæðunum fyrir því er að allt í einu eru Danir, Svíar og Finnar báðum megin í þessum stóru samstarfsverkefnum, bæði innan NATO og Evrópusambandsins, á meðan Norðmenn eru bara öðrum megin. Forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, hefur einmitt nefnt að þetta hljóti a.m.k. að kalla á einhvers konar umræðu hvað sem verður svo gert í þessu. Ég held því að það sé út af fyrir sig ágætt að við eigum þessa umræðu. Við reynum bara að hafa hana eins öfgalitla og hægt er.

Áður en ég kem að bókun 35, sem mér finnst skipta töluverðu máli í þessari umræðu, langar mig að víkja að 7. kafla skýrslunnar, Önnur mál tengd EES-samstarfinu, þ.e. gervigreind. Þar kemur fram að tillaga að nýrri heildstæðri löggjöf um gervigreind sé í pípunum, eða hvort hún hafi hreinlega verið lögð fram af framkvæmdastjórn ESB. Það er auðvitað alveg gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að vera þarna með í samstarfi og vel með á nótunum. Þetta er ótrúlega flókinn veruleiki sem fæst okkar geta nokkurn tímann gert sér í hugarlund hvernig virkar og hvað þá hvaða afleiðingar gervigreindin getur haft. En ég held að fleiri og fleiri séu komnir á þá skoðun að of lengi höfum við einblínt á skemmtilega kosti hennar en kannski minna velt fyrir okkur siðferðilegum álitamálum þegar kemur að henni. Hverjir munu í framtíðinni hreinlega stýra umræðunni, stýra kosningum, stýra hegðun okkar? Mér finnst gott að vakin sé athygli á þessu og vek athygli á því að það er starfandi framtíðarnefnd hjá þinginu, sem er vissulega í mótun og þarf kannski að finna sinn eðlilega flöt en það væri alveg þess virði að sú nefnd myndi kafa betur ofan í hvað felst í þessari heildstæðu löggjöf.

Ég held að við hljótum flest að vera sammála því a.m.k. að dómur Hæstaréttar í máli er varðaði fæðingarorlof í síðustu viku ýtir enn frekar á það að við klárum endurskoðun á bókun 35. Það er rétt að nefna að þetta er í fyrsta skipti, held ég, eftir að nýja dómstólaskipanin komst á hér á Íslandi að dómurinn er skipaður öllum. Hann virðist vera nokkuð afdráttarlaus, alla vega eins og ég skil hann en ég er auðvitað ekki lögfræðingur. Hann fullyrðir beinlínis að bókun 35 eins og hún var samþykkt og ákveðin í upphafi uppfylli ekki kröfur samningsins. Það hlýtur að felast í því brýning til Alþingis að bæta þar úr.

Þar er nú komið að þessum áhyggjum sem ég viðraði áðan um að mér finnst eins og fleiri og fleiri hafi efasemdir um þennan samning. Ég trúi því reyndar ekki að öll sem vilja standa í vegi fyrir samþykkt frumvarpsins sem var lagt fram í fyrra og hæstv. ráðherra hefur boðað aftur núna að verði að lögum séu á móti EES-samningnum. En ég held að það sé alveg rétt að muna að það að stíga ekki einhver skref mun augljóslega hafa slæm áhrif á okkur vegna þess að það eru nánast engar líkur á því að dómstóll EFTA muni komast að annarri niðurstöðu en Hæstiréttur. Maður spyr sig líka: Hvað fá þeir sem tala mest fyrir að í þessu felist fullveldisafsal og við eigum að styðja við fullveldið, hvað finnst þeim um að treysta ekki dómi Hæstaréttar og raunverulega sækja skoðun á honum út til EFTA-dómstólsins? Ég held því að það sé alveg rétt sem hæstv. ráðherra hefur sagt einhvern tímann, ég man ekki hvort hann sagði það í þessari umræðu, að það er skynsamlegra að vera á undan og stíga þetta skref. Gleymum því heldur ekki að hér er auðvitað um að ræða réttarvörslu ríkisins gagnvart borgurunum. Með því að tryggja að fjórfrelsið virki, að einsleitnin á markaðnum virki, erum við að tryggja réttindum landsins betri stöðu. Í því ljósi verðum við að skoða þetta mál.

En ég fagna náttúrlega þessari skýrslu. Hún er mjög góð og ekki margt sem ég hef út á hana að setja, en ég kalla líka eftir því að við séum ófeimin við að taka umræðu um hvort og hvenær breytt heimsmynd og breyttar áskoranir leiða til þess að við þurfum alvarlega að ræða með hvaða hætti við tökum þátt í fjölþjóðlegu samstarfi.