154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

slit ógjaldfærra opinberra aðila.

705. mál
[16:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ábyrgð ríkisins á skuld felst í því að hún er einföld og felur í sér að þegar staðfest er að aðalskuldari getur ekki greitt verður ábyrgðin virk. ÍL-sjóður skuldar höfuðstól skuldabréfa auk vaxta og verðbóta og ábyrgð ríkissjóðs tekur til þessa alls. Í þeirri ríkisábyrgð sem til staðar er felst að ríkissjóður tryggir endurgreiðslur á höfuðstól skulda auk áfallinna vaxta og verðbóta til uppgjörsdags.

Líkt og ég rakti í ræðu minni er það ekki eingöngu þannig að fjármála- og efnahagsráðherra hafi rétt á því að leita leiða til að takmarka tjón ríkissjóðs og komandi kynslóða heldur er það mat okkar helstu sérfræðinga að mér beri einfaldlega skylda til að gera það. Það er mjög jákvætt og ég fagnaði því mjög þegar 18 lífeyrissjóðir féllust á að hefja viðræður við ríkið um samkomulag til að gera upp ÍL-sjóð. Ég vona auðvitað að það gangi eftir og ég hef trú á því að það sé hægt. Takist það þá eru áhyggjur hv. þingmanns líklega óþarfar.

Það eru auðvitað mismunandi sjónarmið, og þau hafa komið fram í álitum frá lífeyrissjóðum á fyrri stigum, um það hver raunveruleg ábyrgð ríkissjóðs er. Við höfum látið vinna slíka vinnu líka og að mínu viti stöndum við á mjög traustum grunni. Ég lít svo á að ég sé einfaldlega að gera það sem mér ber skylda til að gera. Það eru á endanum algjörlega sameiginlegir hagsmunir okkar allra í þessu samfélagi að gera þetta upp og ljúka þessu (Forseti hringir.) og sérstaklega þegar horft er til komandi kynslóða.