154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[17:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls um þetta frumvarp til laga um dánaraðstoð um það að umræðan um þessi mál hefur þroskast talsvert á undanförnum árum. Ég held að mörg hafi orðið betri hugmynd um það hvað átt sé við með dánaraðstoð og séu að leggja mat sitt á það hvort þeim hugnist að hún væri gerð leyfileg á Íslandi en einnig að velta því fyrir sér hvaða atriði það eru sem þarf að hafa í huga ef það væri gert.

Ég kveð mér hér hljóðs vegna þess að ég hef ekki á þessum tímapunkti alveg fastmótaða skoðun á því hvort ég telji rétt eða tímabært að heimila dánaraðstoð. Ég sé alveg fyrir mér tilvik þar sem ég skil mjög vel og myndi örugglega sjálf alveg geta hugsað mér að nýta slíka þjónustu. En ég sé líka fyrir mér aðstæður þar sem það er erfiðara að átta sig á því hvort það sé í rauninni verið að fylgja tærasta vilja einstaklingsins eða hvort aðrir þættir spili þar inn í og hafi jafnvel of mikil áhrif.

Það er nefnt hér í 1. gr. að markmiðið með þessu frumvarpi sem við erum að ræða hér sé að heimila einstaklingum sem glíma við ólæknandi sjúkdóm og búa við ómeðhöndlanlega og óbærilega þjáningu að þiggja dánaraðstoð. Hér er t.d. ekkert minnst á það að einstaklingur þurfi að vera dauðvona. Hér finnst mér við vera komin inn á svæði sem er erfitt vegna þess að í nútímasamfélagi þar sem við búum við mjög gott heilbrigðiskerfi að mörgu leyti og líka gott félagslegt kerfi að mörgu leyti miðað við margar aðrar þjóðir þá er hægt að lifa býsna góðu lífi með ólæknandi sjúkdóma. Mögulega er það skilgreiningaratriði hvað er ómeðhöndlanlegt. Það sama gildir um óbærilega þjáningu.

Ég hef áður í umræðum um skyld mál, sem hafa þó ekki verið í því formi að um sé að ræða frumvörp til laga um að heimila dánaraðstoð, vakið máls á því að mér finnist mikilvægt að setja þessi mál í samfélagslegt samhengi og þá einnig í samhengi við stöðu fatlaðs fólks og þá þjónustu sem það fær í samfélaginu því að mér finnst mikilvægt að dánaraðstoð eigi ekki að vera einhvers konar lausn einstaklingsins eða samfélagsins við því að einstaklingur sé fatlaður. Mér hefur fundist skorta meiri umræðu um þetta og hvernig væri hægt að taka á þessu.

Það er rétt sem hér hefur komið fram, og var raunar ágætt, að það var gerð könnun sem m.a. var beint að félagsmönnum í samtökum sjúklinga um viðhorf þeirra til dánaraðstoðar og þar eru alls konar sjónarhorn uppi. Fatlað fólk og fólk með langvinna sjúkdóma hefur alls konar skoðanir á alls konar málum en mér hefur ekki fundist verið kafað alveg nógu mikið á dýptina hérna og raunar svolítið erfitt að afla sér haldgóðra upplýsinga um það hvernig tekið hefur verið á þessum málum í þeim löndum þar sem dánaraðstoð er heimiluð. Ég hef verið að reyna að leita mér upplýsinga á netinu og þar má kannski segja að annars vegar hef ég fundið ágæta grein sem fjallar um það að til að mynda í Hollandi sé hlutfall fatlaðs fólks sem hefur fengið dánaraðstoð ekkert óeðlilegt eða óeðlilega hátt í samanburði við aðra sem fá dánaraðstoð.

Ég vil taka það fram að fatlað fólk og fólk með ólæknandi sjúkdóma á auðvitað líka að búa við þann rétt að geta þegið dánaraðstoð ef aðstæðurnar eru þannig, til að mynda ef það væri með aðra sjúkdóma sem gætu leitt til þess að það væri dauðvona. En svo er einnig að finna umfjöllun um það að fólk á einhverfurófi eða með þroskahömlun hafi verið að fá dánaraðstoð og það má skilja að það sé vegna þeirrar skerðingar sem hún er veitt en ekki vegna annars ástands sem það á við að glíma. Svipaðar greinar hef ég einnig getað fundið hvað varðar fólk með geðsjúkdóma í bæði Bandaríkjunum og Kanada. Það er hér sem ég tel að við séum komin út á, ég held að það sé ekki nógu djúpt til orða tekið að segja hálan ís heldur séum komin út fyrir það sem ég hef skilið að við öll hér sem höfum tekið þátt í þessari umræðu hér í dag séum að hugsa um þegar við erum að velta fyrir okkur því hvort heimila eigi dánaraðstoð. Mér finnst mikilvægt að nota tækifærið núna þegar það er komið ekki bara þingmál heldur hreinlega lagafrumvarp sem er að ganga til velferðarnefndar að þessi atriði séu skoðuð alveg sérstaklega og þeim sé gefinn meiri gaumur en mér hefur oft fundist vera í umræðunni hingað til, því að ég tel mikilvægt að það verði aldrei til einhvers konar þannig samspil laga og hins vegar aðstæðna sem fólki er boðið upp á í samfélaginu að það, vegna fötlunar sinnar sem mætti skilgreina sem ólæknandi sjúkdóm, sjái enga leið aðra út úr aðstæðunum en að vilja deyja með aðstoð annarra.

Þetta skiptir gríðarlega miklu máli að við tökum alvarlega og skoðum. Kannski er hægt að finna leið til að tryggja þessa hluti en ég vil benda á að það er ýmislegt sem við getum gert betur í réttindamálum fatlaðs fólks og vil bara nefna það sem dæmi að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur enn ekki verið lögfestur á Íslandi eins og þó er unnið að, þó svo að hann hafi vissulega verið fullgiltur og við eigum ekki að setja nein lög sem eru í andstöðu við hann, og vil því bara beina því til nefndarinnar sem tekur þetta mál til umfjöllunar að hún taki þetta sjónarhorn til skoðunar og afli sér greinargóðra upplýsinga um þessi mál því að það eru jú ýmis lönd sem heimila nú þegar dánaraðstoð og mikilvægt að horfa til reynslu þeirra og hvernig þau hafa framkvæmt hlutina.