154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[17:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið og mér finnst mikilvægur sá skilningur sem hv. flutningsmaður frumvarpsins leggur hér í 1. gr. þess. Ég held hins vegar, líkt og kom fram í máli mínu, að hér sé hægt að túlka hluti á ólíkan hátt. Ólíkir einstaklingar geti túlkað hluti á ólíkan hátt, ólíkir læknar geti túlkað hluti á ólíkan hátt og miðað við það sem ég þó hef fundið af upplýsingum á netinu þá hafa til að mynda í Kanada hlutirnir verið túlkaðir á annan hátt. Þess vegna vil ég bara endurtaka það og fagna því sem hv. flutningsmaður talaði um, að fá viðhorf frá til að mynda réttindasamtökum fatlaðs fólks inn í þetta, sem ég held að sé mjög gott. En ég myndi einnig vilja bæta við og fá sjónarhorn frá siðfræðingum, siðfræðingum lífs og dauða, sérfræðingum á sviði fötlunarfræða og fötlunarrannsókna og þeim sem hafa skoðað þetta í breiðara fræðilegu samhengi, þó svo að auðvitað skipti hin lifaða reynsla fólks með ólæknandi sjúkdóma hér líka gríðarlega miklu máli.