154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[17:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt svona samtal og svona skoðanaskipti í þingsal sem geta verið svo góð til að leiða fram sýn og skilning á málum og þess vegna er mikilvægt að nota ræðustólinn hér í umræður sem þessar. Ég skal ekki segja um hvort orðalagið hér sé nógu gott. Ég ætla hreinlega að áskilja mér þann rétt að vera ekki viss, en vil bara fylgjast með hvernig umræðu um málið vindur fram í nefnd. Ég held að þetta sé alveg hárrétt og mikilvægt sem hér er nefnt, að hugmyndin með þessu frumvarpi sé ekki að fatlað fólk verði sá hópur sem myndi fá dánaraðstoð í einhverju allt öðru hlutfalli en almennt gengur og gerist innan samfélagsins. En það er auðvitað líka mikilvægt að halda ballans líka í hina áttina því að fatlað fólk er líka alls konar og fær líka alls konar sjúkdóma eins og til að mynda krabbamein sem ekkert er hægt að gera í. Þá megum við heldur ekki vera á þeim stað að ef þetta væri leyfilegt á Íslandi þá væri þetta úrræði sem fatlað fólk gæti ekki nýtt sér. Þannig að hér skiptir bara gríðarlega miklu máli að vanda sig mjög vel (Forseti hringir.) í vinnunni ef við ætlum að fara út á þessa braut á annað borð.