154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

efnahagsstjórn og kjarasamningar.

[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég ætla að leyfa mér að segja að það er mikil ánægja í samfélaginu með þróun mála á almennum vinnumarkaði. Það er mikil ánægja með að það hafi náðst kjarasamningar til fjögurra ára. Það eru einna helst að maður heyri óánægju frá stjórnarandstöðunni á Alþingi sem kannski átti ekki von á að þetta myndi ganga eftir. Við erum komin með langtímasamninga og ég er mjög bjartsýn á það að fleiri félög fylgi í kjölfarið. Fagfélögin skrifuðu undir um helgina, VR situr við samningaborðið og þar að sjálfsögðu skiptir innlegg stjórnvalda máli.

Hv. þingmaður talar um óstjórn í húsnæðismálum. Ekkert gæti verið fjær lagi. Í tíð þessarar ríkisstjórnar og núverandi hæstv. innviðaráðherra hefur einmitt verið mótuð langtímahúsnæðisstefna sem svo sannarlega var þörf á. Það hefur verið gert rammasamkomulag um uppbyggingu húsnæðis og í þessari áætlun, sem við kynntum samhliða kjarasamningum, er gert ráð fyrir að við höldum áfram að styrkja framboðshliðina eins og við höfum boðað. Ekkert sem þarf að koma á óvart þar. Og já, við erum að efla barnabótakerfið, sem þarf heldur ekki að koma á óvart, enda kynntum við fyrstu aðgerðir til að efla það í tengslum við skammtímasamninga í lok árs 2022. Við ætlum að halda áfram með þá kerfisbreytingu sem byggir á ítarlegu samtali við aðila vinnumarkaðarins. Við ætlum sömuleiðis að efla leigustuðning, sem þarf heldur engum að koma á óvart því að það er það sem við höfum verið að gera.

Hvernig ætlum við að fjármagna þetta? Við munum kynna fjármálaáætlun þar sem gert er ráð fyrir þessu. Við höfum talað algerlega skýrt. Þetta er okkar forgangsmál. Það er okkar forgangsmál að skapa hér forsendur til þess að unnt verði að draga úr verðbólgu og að vextir verði lækkaðir, að skapa forsendur til að lækka vexti. Þess vegna segi ég: Innlegg stjórnvalda í þessa kjarasamninga er fjárfesting, fjárfesting í þjóðarhag. Ég tel að sá ávinningur sem efnahagslífið á Íslandi mun hafa af því að hér náist langtímasamningar sem skapa forsendur fyrir lækkun verðlags og vaxta, sé margfaldur á við (Forseti hringir.) umfang þeirra aðgerða sem hér hafa verið kynntar og gefi okkur tækifæri til að halda áfram að vaxa og dafna á samningstímanum.