154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

efnahagsstjórn og kjarasamningar.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að rifja upp afrek forsætisráðherrans á töfrasviðinu sem eiga auðvitað mikið erindi við almenning í landinu. En ef við erum að ræða áhrif þessara kjarasamninga á þróun efnahagsmála þá munu þeir, a.m.k. ef marka má fyrstu viðbrögð greiningaraðila sem eru öll á einn veg, hjálpa okkur í því verkefni að stuðla að hjöðnun verðbólgu og skapa forsendur fyrir lækkun vaxta. Ríkissjóður er ekki ein stærð sem hægt er að tímasetja á einn dag og þess vegna segi ég: Þetta eru hin stóru þjóðhagslegu áhrif. Ég vil hins vegar vera algerlega skýr, eins og hæstv. fjármálaráðherra var hér áðan: Við teljum, með því að taka þessa ákvörðun, að þetta sé okkar forgangsverkefni í komandi fjármálaáætlun. Þetta hefur forgang umfram önnur verkefni. Við erum ekki að fara að fjármagna þetta, enda væri það nú vægast sagt óeðlilegt að koma aftan að fólki þannig, með því að hækka tekjuskatt á einstaklinga eða lögaðila í landinu. Við erum ekki að gera það. En ég vil líka segja það af því hv. þingmaður nefndi hér árangur ríkisstjórnarinnar í þessu að sjálf hef ég nú sameinað stofnanir, það hafa fleiri ráðherrar gert. (Forseti hringir.) Hér hefur verið unnið heilmikið í því verkefni að einfalda ríkisreksturinn og ég er ekki í nokkrum vafa um að það er áfram hægt að gera (Forseti hringir.) án þess að það bitni á nokkurn hátt á þjónustu við almenning sem alltaf er okkar forgangsmál. Ég held að þessar aðgerðir sem við kynntum séu góðar fyrir samfélagið, góðar fyrir velferðina í landinu (Forseti hringir.) og reynist á endanum, eins og ég sagði áðan, fjárfesting í þjóðarhag.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími er takmarkaður í óundirbúnum fyrirspurnum, bæði hjá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum, tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari.)