154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

breytingar á lögum um útlendinga.

[15:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það væri freistandi að blanda sér í umræðurnar sem áttu sér stað hérna rétt áðan og í upphafi, sérstaklega eftir að hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri ekkert mál fyrir þessa ríkisstjórn að spara 80 milljarða sársaukalaust. Ég efast ekki um að hæstv. forseti hefur hlegið inni í sér eins og ég þegar þessi orð féllu, enda er þessi ríkisstjórn auðvitað búin að slá öll met Íslandssögunnar í ríkisútgjöldum en kynnir sig nú sem nýja, einu sinni sem fyrr, eftir sjö ár af metum í útgjöldum, og ætlar að fara að spara.

En hvað um það, ég þarf að spyrja um annað mál, ekki síður stórt mál sem varðar ríkisfjármálin ekki síður en þetta, og það eru útlendingamálin og óstjórnin þar sem kom aðeins til umræðu hérna áðan. Nú þegar nýbúið er að kynna einhvers konar heildaráætlun ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum, kostulegt plagg sem var þó kynnt með pompi og prakt á blaðamannafundi og snerist aðallega um að rekja óskalista Vinstri grænna um hvernig mætti auka þjónustu við hælisleitendur og auka aðdráttarafl landsins í þeim efnum, auk hefðbundinnar froðu, en rétt í lokin var getið um það að Sjálfstæðisflokkurinn fengi að klára nýtt lítið útlendingamál, breytingar á útlendingalögum. Svo kom á daginn, eins og allir gátu séð fyrir, að þingflokkur Vinstri grænna átti í erfiðleikum með þetta og hingað kom hv. þingflokksformaður þeirra og útskýrði að aðalatriðið væri að byrja á Vinstri grænu atriðunum. Menn þar gætu ekki sætt sig alveg við allt í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra.

Þá spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra: Hefur þetta engin áhrif á samstarf (Forseti hringir.) við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð? Mun Sjálfstæðisflokkurinn einu sinni sem oftar láta leiða sig, (Forseti hringir.) draga sig í að framfylgja öllu því sem VG vill, fáandi ekkert í staðinn?