154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

áætlanir um uppbyggingu húsnæðis.

[15:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort fyrirspurnin snerist um þá spurningu hvort við sjáum ekki hvað þurfi að gera því að svarið er jú og ég gæti þá bara hætt hér. En vegna inngangsins hjá hv. þingmanni um að 2016 hafi stefnt í skort á húsnæði þá er það rétt og reyndar miklu fyrr af því að það var auðvitað ekkert byggt frá efnahagshruninu. Þess vegna var farið af stað með að búa til nýtt húsnæðiskerfi á vegum ríkisstjórnarinnar sem þá var, lagagrunnurinn teiknaður og á næsta kjörtímabili var unnið að því að koma því í framkvæmd. Núna erum við komin með nýtt húsnæðiskerfi. Það er búið að úthluta eða setja fjármuni í yfir 6.500 íbúðir í almenna íbúðakerfinu og hlutdeildarlánum og ætli það sé ekki búið í einum 5.600 slíkum íbúðum. Þannig að það er komið nýtt kerfi.

Höfum við ekki verið að vinna vinnuna okkar? Jú, við höfum verið að vinna vinnuna okkar og fyrir þinginu liggur húsnæðisstefna þar sem eru 43 aðgerðir sem lúta bæði að því að auka framboð, auka skilvirkni, gæði, öryggi og margt fleira á húsnæðismarkaði og tekið heildstætt á honum, heildarstefna ríkisins í þessum málaflokki. Hv. þingmanni má finnast það eitthvað ósvífið að við séum staðföst í því sem við segjum í húsnæðisstefnu og þeim frumvörpum sem hafa komið hérna inn og leggjum síðan í fjárlögum fram áætlanir um hvað við ætlum að gera og komum síðan til verkalýðshreyfingarinnar og segjum: Já, það er rétt, ein af stærstu áskorunum á íslenskum efnahagsmarkaði er húsnæðisskortur. Fólki hefur reyndar fjölgað um 3,1% tvö ár í röð sem er dálítið umfram það sem menn höfðu vænst. En það er rétt, ríkisvaldið ætlar að standa áfram með ykkur út þennan samningstíma og byggja 1.000 íbúðir í þessu kerfi. Við ætlum líka að skapa svigrúm til þess, með samtali við sveitarfélögin, að tryggja lóðir og tryggja þetta svigrúm sem skapast með lægri verðbólgu og lægri vaxtakostnaði og auðveldari fjármögnun fyrir verktakana að byggja. (Forseti hringir.) Við ætlum ekki að byggja þessar 4.000 íbúðir sem þarf, markaðurinn hlýtur að gera það. En við ætlum að styðja við bakið á þeim sem ekki geta eignast eða leigt húsnæði öðruvísi en að ríkið komi að því.