154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

áætlanir um uppbygging húsnæðis.

[15:43]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Nei, það hefur ekki gengið eftir af ýmsum ástæðum. Til að mynda var lengi vel skortur á lóðum undir almennar íbúðir. Stofnframlög sem við náðum að fjármagna var ekki hægt að deila út, m.a. hérna í Reykjavíkurborg fyrir tveimur árum og við hv. þingmaður tókum oft rimmu um það. Það var staðreynd, þær lóðir voru ekki til og þess vegna skilaði leigufélagið Bjarg slíkum íbúðum og það er hægt að ræða við þá hjá Bjargi, þeir munu staðfesta það.

Ástandið í samfélaginu er líka þannig að Seðlabankinn hefur haldið dálítið uppi háum vöxtum af ýmsum ástæðum og hann hefur meira að segja verið að beita sérstökum aðferðum á fyrstu kaupendur sem hafa þar af leiðandi ekki komist inn á markaðinn. Við í þessu mjög þrönga umhverfi höfum því verið að ná árangri. Til að mynda á síðasta ári ætluðum við að byggja 800 íbúðir í þessu kerfi sem ég var að lýsa hérna áðan og þær voru 764 eða 767, ef ég man rétt, sem voru byggðar af 800 sem við ætluðum að byggja á síðasta ári, svo það sé nú sagt. Það voru 1.000 á þessu ári og 1.000 á því næsta.